Gerum þetta saman

Pistill birtur í Morgunblaðinu laugardaginn 20. nóvember 2021

Undanfarin misseri hef ég velt því fyrir mér að bjóða mig fram til varaformanns Kennarasamband Íslands, sem að ég svo gerði þann 16. nóvember, að vel athuguðu máli.

Frá aldamótum síðustu hef ég starfað á vettvangi leikskóla, grunnskóla og við virkniúrræði ungmenna á aldrinum 16 – 24 ára sem ekki hafa fundið sig í hinu almenna og hefðbundna menntakerfi framhaldsskólans.

Ég hef átt í góðu samstarfi við stjórnendur og aðra fagaðila meðal annars innan framhaldsskólanna, Menntamálastofnunar og Vinnumálastofnunar.

Á þeim rúmum 20 árum sem ég hef starfað á vettvangi kennslu, fyrst sem leiðbeinandi, svo sem kennari, stjórnandi og náms- og starfsráðgjafi hafa verkefnin verið afar fjölbreytt og lærdómsrík. Segja má að þau hafi mótað mig og hugsjónir mínar að miklu leyti en á sama tíma hefur þekking mín, hæfni og reynsla aukist.

Ég er afar stolt af minni fagstétt og tel hana gera kraftaverk á hverjum degi. Í skólum landsins, á öllum skólastigum, fer fram mikilvægt starf þar sem mannauður er mikill og dýrmætur. Það er því nauðsynlegt að hlúa að þeim og skapa þeim gott og öruggt starfsumhverfi. Ánægja starfsmanna skilar sér til betri starfsanda og vinnubragða sem skila sér beint til nemenda og hefur áhrif á gæði kennslunnar og árangur nemenda verður meiri. Samstarf aðila innan skólans sem utan er einn þeirra þátta sem skiptir hvað mestu máli. Við þurfum og eigum að hlusta á raddir kennaranna, vinna saman að settum markmiðum, skapa sameiginlega sýn og ávallt að hafa hagsmuni nemendanna að leiðarljósi. Ég hef alla tíð talað fyrir þessum hugsjónum mínum við mitt samstarfsfólk.

Lengi má gott bæta! Við eigum það því miður of mikið til að ræða meira um það sem miður hefur farið en það sem gott hefur verið gert. Það er mín skoðun að við ættum að láta það heyrast betur þegar vel gengur. Við ættum að huga betur að gæðum starfsins með fjölbreyttari leiðum en nú þegar er gert, bæði hvað varðar kennsluhætti, stjórnun og samstarf með árangur nemenda okkar í huga.

Varaformaður KÍ starfar í nánu samstarfi við formann félagsins þar sem þeir leiða saman hesta sína í öflugu samstarfi við aðildarfélögin átta. Ég tel að með faglegum og sveigjanlegum stjórnunarháttum, heiðarlegu og opnu samtali ásamt lausnamiðuðum nálgunum og valdeflingu kennara náum við árangri í sameiningu.

Ég tel mig hafa það sem þarf til fyrir embætti varaformanns KÍ þar sem ég mun leiða þessa öflugu fylkingu við hlið nýkjörins formanns hennar. Ef ég verð fyrir valinu og mér treyst fyrir þessu stóra og mikilvæga verkefni mun ég leggja mitt af mörkum við að vinna ötullega að hagsmunum félagsmanna aðildarfélaganna allra í góðu og öflugu samstarfi.

Virðingarfyllst

Hjördís B. Gestsdóttir

Út fyrir öll velsæmismörk!

Hvernig getum við unnið með þessari framþróun ef þróun skildi kalla?

Getum við bara horft og hlustað á allt sem er í gangi og sætt okkur við það?

Hvaða bjargir höfum við og hver á að bera ábyrgðina á öllu þessu sem á okkur er hent?

Svarið í sinni einföldustu mynd er samvinna, samstaða og samtal!!!

Kerfið er kafbátur sem er löngu sokkinn til botns og marg drukknaður, það er engin lausn, engin björgun, ekkert land!

Kulnun í starfi kennara er ekki ný af nálinni og engan skildi furða…. hver er svo sem að reyna að skilja?… Verkefnalisti kennaranna (skólanna) hefur lengst umtalsvert undanfarna áratugi. Áhersla er á að kennarar þurfi að bregðast við öllu allt í senn sem sérfæðingar á ótal sviðum. Hver er samt hin eiginlega birtingarmynd?

Fjárskortur, skortur á sérhæfingu, skortur á þróun og skilningi vandans sem við blasir? Hér má nefna þróun tækninnar sem því miður er ekki öll af hinu góða…. hún hefur aukið á álagið en afskaplega fáir hafa opnað á það sem vandamál.

Æ fleiri nemendur eru að „lenda“ í því að um þá er talað nafnlaust á neikvæðan hátt á samfélagsmiðlum þar sem möguleikinn á þessum naflausu skilaboðum er fyrir hendi. Foreldrar eru því miður oftar en ekki ómeðvitaðir um þetta og oft kemst þetta upp innan veggja skólanna fyrst. Viðbrögð foreldra eru samt sem áður þau að ….. nei það getur ekki verið, barnið mitt myndi aldrei… o.s.frv. Erum við þá ekki komin inn á það að tala um „foreldra vandamál“? 😉

Okey, nú er ég búin að gefa öllum leyfi, sem þetta lesa, til að „jarða“ mig… en NEI…. Í alvöru!!!! Við VERÐUM að vinna saman og finna sameiginlegan jákvæðan flöt á öllu sem upp getur komið í samskiptum og samveru barnanna okkar.. NÚNA… STRAX!!

Ég brenn fyrir málefnum barna og ungmenna í landinu og hef gert í mjög langan tíma. Okkur er ekki gert auðvelt fyrir m.a. sökum vanþekkingar, lélegrar hlustunar milli fagmenntaðra, skort á skilningi, fjársveltis…. o.fl.

Þetta er bara byrjunin…

Ef ég bara væri… og hefði einhver völd…. þá….!!!!!

Knús og klemm…..!

Ykkar ávallt…. bara ég, Hjördís B. Gestsdóttir

Okkur á ekki að vera sama!!

Hugleiðingar

Öll hugsum við um svo ótal margt alla daga. Hugsanir okkar eru um og yfir 30 þúsund sem fara um huga okkar dagsdaglega. Margar eru jákvæðar, aðrar ekki eins jákvæðar. Sumar litast þær af skemmtilegum minningum eða draumum um betra líf, það er eðlilegt! Fyrir marga er erfitt að hugsa jákvætt, á þeim hefur verið brotið, foreldrar ekki náð að standa sig sem slíkir, hjálp ekki verið að fá… hvernig á þá að halda áfram ef enginn er til staðar til að treysta á?

Sumir eiga allt sem hugurinn girnist, einbýlishús, nýja rándýra bíla úr kassanum, utanlandsferðir farnar sex sinnum á ári, alltaf í nýjustu tísku, föt, símar og aðrar græjur up to date!!! Hmmm en ekki allir, sumir búa hjá einstæðu foreldri, í bílskúr, herbergið stúkað af með teppum eða gardínum, maturinn kaldur eða enginn…. Samt er unnið fyrir sér og engin óregla…. Ekki núna og hvað? Allir hinir dæma…. Hvað veit fólk?

Kerfið okkar, svo kallaða, er ekki að virka, langt frá því. Gallarnir eru svo ótal margir og við verðum og eigum að bregðast við og rétta hjálparhönd. Okkur má ekki vera bara sama og hugsa „þetta er þeirra vandamál“! Margt smátt gerir eitt stórt!

Við þurfum að byrja á byrjuninni, ekki þegar í óefni er komið. Það þarf að huga að hverjum og einum strax og bregðast við núna ekki eftir 10 – 15 ár í „kerfinu“!

Þetta er „örstutta“ útgáfan af mínum hugleiðingum og ég þykist vita að það eru svo margir aðrir í mínum og tengdum geira að hugsa svipað!

Við verðum að gera svo MIKLU betur, núna, strax og á svo mörgum sviðum!!!

Bestu kveðjur, Hjördís – Móðir, eiginkona, dóttir, systir, kennari, náms- og

„Hormónaveiran“ og uppeldi

Unga fólkið og hormónar, hverjum datt í hug að blanda þessu tvennu saman á þessu æviskeiði mannsins? Jemundur minn!

Það er nú aldeilis ekki í hendi hvers sem er að höndla þetta tímabil, hvorki ungmennið sjálft né uppalendur eru með próf í þessum „veirum“ sem synda stjórnlaust um líkamann með tilheyrandi áhrifum. Hver elskar ekki að ræða lífsins gagn og nauðsynjar við unglinginn sinn fullur vonar um að ekkert ami að hlustuninni hjá honum en þrátt fyrir afar vel valin orð og líkingamál auk æfingar á leiðsögninni, eru einu viðbrögðin í formi hljóðs eins og „umhm“!

Ég verð nú að segja að ég tek hattinn ofan fyrir okkur uppalendum ungmenna, sérstaklega á þessu skeiði í lífi þeirra, að tapa hreinlega ekki glórunni af áreynslu og metnaði fyrir bjartri framtíð þessara yndisvera.

Í árferði sem þessu, sem við öll upplifum svo sterkt, hver á sinn hátt, reynir heldur betur á marga og þá ekki síst ungmennin okkar sem all flest hlökkuðu mikið til að hefja nám í framhaldsskólum landsins, og öðrum, með von um að kynnast haug af öðru ungu og skemmtilegu fólki og gera fullt til að safna jákvæðum minningum.

En nei, það er ekki raunin, byrjaði jú ágætlega en svo kom Covid í þriðju bylgju og allt bakkaði heim í herbergi, í tölvuna, í símann og þau urðu bara að bjarga sér og halda haus. Hvað gerist þá? Jú, stór áhrifavaldur er „hormónaveiran“ góða sem syndir um og stýrir aðeins stefnunni, meira hjá sumum en öðrum eins og gengur. Hún er ekki auðveld viðureignar og getur haft mikil áhrif á orkuna og áhugann til að mynda, kannski ekki ólíkt mörgum öðrum veirum. Það getur reynst þrautinni þyngri að uppræta hana fljótt og vel þar sem hún er eiginlega ódrepandi í einhver ár blessunin en með góðu móti er þó mögulegt að temja hana lítillega.

Þetta allt kostar mikla orku, tíma, þolinmæði, jákvæðni, seiglu, þrautseigu og bjartsýni sem auðvitað allir uppalendur hafa nóg af, enda ekkert annað að gera yfir daginn, eða hvað?

Við skulum öll vona að sem flestir komist í gegnum þetta með sem fæstum hindrunum og nái sínu striki með hjálp frá hvort öðru. Semjum frið við þessa blessuðu „hormónaveiru“ í þeim tilgangi helst að halda geðheilsunni ef ekki værir fyrir annað.

Gangi okkur öllum vel að finna jafnvægi, gleði og hamingju.

Góðar stundir,

Hjördís

Menntun og velferð barna/unglinga/ungmenna

Hver er lausnin?

Það er alveg ljóst að alltaf má gera betur því lengi má gott bæta eins og sagt er einhver staðar!

En í hversu góðum málum erum við þegar litið er til mennta- og velferðarkerfisins okkar hér á Íslandi?

Ég er á þeirri skoðun að til þess að sporna við eða í það minnsta til að draga úr fjölþættum vanda barna í skólum landsins, þurfi mikið að koma til viðbótar til styrkingar á því kerfi. Það ætti að leggja miklu meira til málefna menntunar strax á fyrsta stigi menntunar barna, sem er leikskólinn. Í leikskólanum fer fram afar mikilvægt og faglegt starf sér menntaðra starfsmanna. Auk þeirra eru aðrir starfsmenn, oft ekki sér menntaðir á sviðinu, sem eru ekki síður mikilvægir til þess hreinlega að geta haldið leikskólunum opnum svo hægt sé að veita þessa flottu þjónustu.

Strax á þessu fyrsta skólastigi reka starfsmenn augun í ýmislegt sem betur þarf að skoða hjá einstaka barni eða í tengslum við persónulega umgjörð þess. Það klingja einhverjar viðvörunarbjöllur og oftar en ekki að ástæðulausu. Hvað tekur þá við? Jú, því miður of oft bið, endalaus bið, bið eftir því að barnið nái meiri þroska, aðeins að sjá til hvort þetta eða hitt gerist ekki, foreldrarnir áttu kannski bara slæman dag o.s.frv. Þetta fær svo að ganga svona í einhvern tíma óáreitt, ekkert gert, ekkert kannað, ekkert ferli, bara bið!

Hér þarf inngrip eða eins og það kallast í dag á afar fallegu faglegu máli, „snemmtæka íhlutun“!

Hlustum á fagfólkið og skoðum málin með opnum huga, strax, ekki bíða og sjá til! Við berum ábyrgð saman á velferð barnanna sem við erum að sinna í okkar dagsdaglegu störfum.

Fyrir mér er og hefur alltaf verið kýrskýrt hvar vandinn liggur og það er í tengslum við það fjármagn sem sett er inn í mennta- og velferðarkerfið okkar ásamt réttri sýn. Við þurfum að auka við stöðugildin og setja meira undir stoðirnar strax frá upphafi. Það þarf að þjónusta börnin og fjölskyldur þeirra af sterkum hætti og leiðbeina á faglegan hátt með árangur þeirra í huga til seinni tíma litið. Í þessu ferli fellst sparnaður sem ekki verður í tölum talið og fækkun „vandamála“ sem upp koma síðar á lífsleiðinni verður veruleg.

Það má ekki loka augunum fyrir þessu og leyfa málunum að velkjast um í kerfinu, bíða og sjá, það gerir ekkert gagn!

Ef ekkert er að gert eða lítið og seint gripið inn í þá þurfum við á fjölbreyttum úrræðum að halda fyrir ungt fólk sem ekki hefur náð að fóta sig í skóla né vinnu. Þessum hópi fólks þarf að sinna vel eins og öðrum en með „snemmtækri íhlutun“ og styrkari stoðum kerfisins frá fyrsta skólastigi getum við fækkað verulega í þeim hópi markvisst!

Góðar stundir,

Hjördís

Börn, uppeldi, ábyrgð!

 

„Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“!

Þetta eru orð að sönnu og hafa þau heyrst við og við til fjölda ára en að mínu mati ættu þau að heyrast oftar: Af hverju? Jú, af því að það er 100% sannleikur sem felst í þeim og allt of margir gleyma hversu sterk áhrif þau geta haft á unga fólkið, bæði í ræðu, riti og athöfnum daglegs lífs.

Hvernig er t.d. umræðan við eldhúsborðið? Hvernig er fréttaflutningur fjölmiðla og annarra samfélagsmiðla? Hvaða viðhorf hefur fólkið í kringum okkur? Temur fólk sér almennt jákvætt viðhorf og reynir það að sjá hlutina í öðru ljósi en því hvernig þeir eru settir fram? Á einu máli eru margar hliðar, eins og á teningnum, dæmum varlega og alhæfum ekki!

Þegar börn eru annars vegar þá koma margir að uppeldi þeirra, þ.e. foreldrar, systkini, nánustu ættingjar, vinir foreldra og systkina og auðvitað starfsfólk leik- og grunnskóla. En hver ber ábyrgð á uppeldi og námi barnsins? Hver á að gera hvað, hvar og í hverju liggur ábyrgðin? Það þarf marga fagaðila til að reisa eitt hús og að sama skapi þarf marga aðila til að koma einu barni til manns. Ef samvinnan og samstaðan í byggingaferlinu er ekki til staðar þá veikjast stoðirnar, það gefur auga leið. En hvernig getum við í sameiningu styrkt þessar stoðir og séð til þess að grunnurinn sé sterkur og stöðugur?

Skoðum í stuttu máli eina mikilvæga hlið grunnskólakerfisins –

Fjárúthlutun Sveitarfélaga til grunnskólanna er oftar en ekki mjög að skornum skammti. Það er einmitt á grunnskólastigi sem börnin þurfa að fara að standa meira á eigin fótum. Smátt og smátt eykst álagið bæði námslega sem og félagslega.  Það á ekki endilega svo vel við alla þetta umhverfi þar sem mörg börn eru saman komin inni í einni kennslustofu. Kennarar miðla efni, fróðleik til nemenda og vonast til þess að þeir geri það nægilega skýrt og faglega til þess að nemendur geti nýtt sér það og byggt ofan á. En staðreyndin er sú að umhverfið í kennslustofunni er ekki alveg svona einfalt, það eiga margir erfitt með einbeitingu, geta illa setið kyrrir, eru sífellt að hugsa eitthvað allt annað, finnst sessunauturinn meira spennandi en efnið sem verið er að miðla í kennslustundinni o.s.frv. Þegar kennslustundinni lýkur hefur kennarinn mjög líklega ekki náð að halda sig 100% við áætlun, þar sem hann þurfti að sinna mörgum og fjölbreyttum málum sem upp komu og tengdust ekkert kennslunni sjálfri eða efninu.

Ég tel að í hverjum skóla séu börn sem eiga mjög erfitt uppdráttar eins og kerfið er í dag. Úrræði eru lítil og engin og ef einhver, þá verulega seinvirk og máttlaus, því miður. Ég er á þeirri skoðun að ef við gætum gripið snemma eða fyrr inn í með úrræði hjá börnunum sem eru á jaðrinum þá næðum við að rétta þau fyrr við og þau myndu þrífast betur í skólakerfinu og vera hamingjusamari.

Stjórnendur og oft kennarar í grunnskólum eru þeir aðilar sem fá allar skammirnar frá sárum og reiðum foreldrum þegar ljóst er að ekki er hægt að veita börnum þeirra meiri þjónustu en öðrum, þrátt fyrir að þurfa á því að halda og öllum sé það ljóst.

Þegar upp er staðið varðandi þennan þátt þ.e. að nemendur fái viðeigandi aðstoð innan veggja grunnskólans, er ábyrgðin á höndum Sveitarfélaga, þaðan sem fjárveitingin kemur og er hún oftar en ekki verulega skorin við nögl eins og áður sagði. Hversu oft ætli stjórnendur grunnskóla hafi sest niður með sveitarstjórnarmönnum eftir að hafa séð fjárúthlutun næsta skólaárs og óskað eftir meiru? Ég leyfi mér að fullyrða að það gerist hjá ansi mörgum ár hvert en því miður eru óskirnar ekki uppfylltar að fullu og þá hefst „sorteringin“. Hvaða börn þurfa „mest“ á meiri aðstoð að halda?

Sorglegt en satt, því miður!

Ábyrgð foreldra –

Hver er ábyrgð foreldra hvað varðar nám barna þeirra til 16 ára aldurs?

Eitt dæmi: Ef t.d. barn fer í frí á skólatíma og missir úr skóla í einhverja daga, hvað þá? Það gefur augaleið að ekki verður skólastarfið sett á „hold“ á meðan þannig að barnið sem fór í frí ætti að hafa með sér námsbækur til að halda áætlun eða vinna sér í haginn fyrir ferðina með aðstoð foreldra sinna. Það er sem sagt alfarið á ábyrgð foreldra að sjá til þess að barnið þeirra nái að halda í við námsefnið út frá kennsluáætlunum. Það er ekki á ábyrgð skólans/kennarans að miðla efni til barnsins og kenna því það efni sem það fór á mis við eftir að það kemur til baka úr fríinu. Foreldrar eiga að fylgjast vel með námi og ástundun barna sinna alla grunnskólagönguna en auðvitað á ábyrgðin smátt og smátt að verða meiri hjá barninu eftir því sem það verður eldra og þroskaðra. Sumir þurfa meiri aðstoð við námið en aðrir og í lengri tíma og er það hinn eðlilegasti hlutur. Munum hverjar fyrirmyndirnar eru, foreldrarnir, kennararnir, vinirnir, fræga og þekkta fólkið o.fl. o.fl. Rannsóknir hafa sýnt að foreldrar eru þeir aðilar sem oftast eru nefndir sem fyrirmyndir barna sinna og jafnframt spila þeir stærsta hlutverkið í að móta börnin sín. Ein „röng“ skilaboð geta haft mikil áhrif á framhaldið, þess vegna er svo mikilvægt að vanda sig alltaf alla daga.

Niðurstaða –

Við þurfum öll að sitja við sama borð, róa í sömu átt, vera saman í liði. Öll höfum við hlutverk, þau geta verið keimlík en samt á köflum ólík. Verum óhrædd við að eiga samtal og hugsa í lausnum. Samvinna heimilis og skóla er mikilvæg fyrir alla og styrkir okkur öll. Það besta fyrir barnið er að finna að starfsmenn skólans og foreldrar þeirra vinni saman á jákvæðan og uppbyggilegan hátt með velferð þeirra að leiðarljósi, fyrst og fremst.

„Saman stöndum vér og sundruð föllum vér“, þetta er háfleygt en svo satt.

Takk fyrir mig að sinni!

Hjördís B. Gestsdóttir

Einelti – félagslegir erfiðleikar

Er eitthvað sameiginlegt með félagslegum erfiðleikum og einelti?

Þau börn sem eiga við félagslega erfiðleika að stríða eru oft þau sömu og upplifað hafa eða orðið hafa fyrir einelti. Einelti er stundum ofnotað orð og krakkar nota það í fullmiklum mæli á rangan hátt. Flestir skólar landsins kynna nemendum vel fyrir þessu hugtaki og útskýra við hvað er átt þegar um einelti er að ræða. Í sumum skólum eru jafnvel fallegar veggmyndir sem útskýra vel þetta hugtak.

Skilgreining eineltis: Einelti er endurtekið, andlegt eða líkamlegt ofbeldi og/eða félagsleg útskúfun sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann. Einelti á sér stað á milli tveggja einstaklinga eða einstaklings og hóps.

Einelti getur birst í mörgum myndum, það getur verið:

  • Munnlegt, t.d. uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni.
  • Líkamlegt, t.d. barsmíðar, spörk og hrindingar.
  • Efnislegt, t.d. eigum barns stolið eða þær eyðilagðar.
  • Skriflegt, t.d. niðrandi tölvuskeyti, sms-skilaboð, krot og bréfasendingar.
  • Andlegt, t.d. þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem gengur gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.
  • Óbeint. t.d. baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahóp.

Nánari upplýsingar er t.d. að finna á eftirfarandi vef: http://doktor.is/grein/einelti-rad-til-foreldra

Barn eða einstaklingur sem upplifað hefur sig útundan í hópnum til langs tíma fer að dæma sig hart sjálfur og fer að trúa því að hann sé ómögulegur, ljótur, leiðinlegur, að hann kunni eða geti aldrei gert neitt rétt o.fl. o.fl. Einstaklingurinn myndar með sér brotna og ranga sjálfsmynd því hann er mikið einn og kann ekki að finna sér leið inn í hópinn aftur nema mögulega með rangri hegðun eins og að leika „trúðinn“.

Það vill oft brenna við að einstaklingurinn sem verður fyrir einelti er tekinn út úr hópnum og rætt við hann af fullorðnu fólki. Náms- og starfsráðgjafinn ræðir við hann um líðan hans, skólasálfræðingurinn ræðir við hann um líðan hans, deildar- og/eða skólastjóri ræðir við hann um líðan o.s.frv. Jú það er alveg líka rætt við gerendur, oft af sömu aðilum, en einhvern vegin fer ekki nein markviss vinna fram sem skilað getur jákvæðum árangri í raun. Hvað er til ráða? Hvernig er best að vinna með þetta? Hver á að gera hvað? Hvað geta heimilin gert? Hvað getur skólinn gert? Hvað geta börnin sjálf gert? Það þarf að kryfja málið, finna upphafið, ræða saman á jafnréttisgrundvelli. Ekki stöðugt benda og segja: „hann sagði“, „hún sagði“ o.s.frv. Jafnaldrarnir sem eiga í hlut hverju sinni þegar svona mál koma upp verða að vera settir í vinnu til að leysa vandann ekki senda þolandann, eins og oftast er gert, í stöðug viðtöl/samtöl við fullorðna sem voru ekki einu sinni með í þessum aðstæðum.

Svarið við spurningunni minni hér að ofan er því „“ það er ýmislegt sameiginlegt með einelti og félagslegum erfðiðleikum. Sá sem á við félagslega erfiðleika að stríða almennt, getur verið auðvelt skotmark eineltis þ.e. er spottaður út úr hópnum og hann tekinn fyrir. Hins vegar sá sem verður fyrir einelti getur þróað með sér að eiga við félagslega erfiðleika að stríða vegna eineltisins, hann hættir að treysta og kann ekki lengur að vera hann sjálfur og þorir því heldur ekki vegna fyrri reynslu af einelti.

Þetta er flókið og erfitt og oft illleysanlegt en allt er þó hægt með jákvæðum samskiptum milli manna þar sem allir stefna að sömu niðurstöðu = UPPRÆTINGU, SÁTT OG VELLÍÐAN ALLRA INNAN SEM UTAN.

Náms- og starfsráðgjöf (náms- og starfsfræðsla)

Hvað gera náms- og starfsráðgjafar? Þetta er alls ekki óalgeng spurning frá fólki á öllum aldri. Mér finnst alveg vera kominn tími til að upplýsa fólk betur um þau fjölbreyttu störf sem náms- og starfsráðgjafar sinna. Greinin þarf að vera sýnilegri almenningi og nýta þarf þekkingu og reynslu þessara fagaðila betur. Til þess að verða löggildur náms- og starfsráðgjafi þarf að fara í tveggja ára MA nám sem kennt er við Háskóla Íslands, námið er mjög krefjandi og enginn leggur á sig svona nám nema til þess eins að ætla sér að fara að starfa á sviðinu.

Hvar starfa náms- og starfsráðgjafar? Jú, þeir eiga lögum samkvæmt að starfa í ÖLLUM grunn- og framhaldsskólum landsins, háskólarnir bjóða upp á náms- og starfsráðgjöf, Vinnumálastofnun t.d. vegna atvinnuleitar og endurhæfingar, sí- og endurmenntunarstöðvar eins og Mímir símenntun, Iðan fræðslusetur, Námsflokkar Reykjavíkur, Námsflokkar Hafnarfjarðar o.fl. o.fl.

Hver eru helstu hlutverk náms- og starfsráðgjafa? Fyrst og fremst eru náms- og starfsráðgjafar trúnaðar- og talsmenn skjólstæðinga sinna, þeir bera ávallt hagsmuni þeirra fyrir brjósti og hjálpa þeim við að finna hæfileikum sínum réttan veg og stefnu hvort sem er námslega eða í leit að starfi. Áherslur geta verið misjafnar eftir því hvaða vettvang er um að ræða, þ.e. hvort um er að ræða grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla o.s.frv. Sjá dæmi hér fyrir neðan:

Grunnskóli –

Helstu verkefni náms- og starfsráðgjafa eru:

  • Veita ráðgjöf varðandi nám, námstækni og námsvenjur.
  • Veita ráðgjöf varðandi náms- og starfsval.
  • Veita persónulega ráðgjöf og stuðning.
  • Veita leiðsögn og ráðgjöf um streitu- og kvíðastjórnun.
  • Veita leiðsögn og ráðgjöf um reiðistjórnun.
  • Bjóða uppá áhugasviðskannanir í 10. bekk.
  • Veita nemendum og foreldrum þeirra upplýsingar um framhaldsnám.
  • Vinna að eineltismálum í samvinnu við umsjónarkennara og annað starfslið skólans.
  • Standa vörð um velferð nemenda og er trúnaðarmaður og málsvari þeirra.

 

Framhaldsskóli –

  • Ráðgjöf vegna náms- og starfsvals
  • Bjóða upp á áhugasviðskannanir (STRONG, Bendill, Í leit að starfi)
  • Bjóða upp á prófkvíðanámskeið
  • Leiðsögn vegna kvíða- og streitustjórnunar
  • Ráðgjöf varðandi námstækni – glósutækni, tímastjórnun, skipulag
  • Fara yfir prófareglur með nemendum
  • Bjóða upp á leiðsögn varðandi prófaundirbúning
  • Veita aðstoð vegan námsörðugleika

 

Þetta er alls ekki tæmandi upptalning en eftir því sem einstaklingar verða eldri og þroskaðri getur lífið orðið flóknara þegar kemur að námsvali og starfvali og þá er gott að geta leitað til fagaðila. Fagaðilinn þ.e. náms- og starfsráðgjafinn hefur ekki endilega svörin við öllu en hans starf er að hjálpa einstaklingunum að líta inn á við og finna sjálfan sig í þessum ólgusjó sem oft blasir við þeim.

Eins og málin standa í dag fá ekki allir nemendur grunn- og framhaldsskólanna á Íslandi náms- og starfsráðgjöf (fræðslu) eins og lög gera ráð fyrir. Fyrir utan það þá eru til innlendar rannsóknir sem sýna að í sumum skólum er aðeins einn náms- og starfsráðgjafi með allt upp í 800 nemendur á sinni könnu einn og óstuddur. Samkvæmt tillögum nefnda hér á landi og Bandarísku námsráðgjafasamtakanna væri æskilegur nemendafjöldi 300 á hvert 100% stöðugildi náms- og starfsráðgjafa (http://www.althingi.is/altext/136/s/pdf/0353.pdf).

Að mínu mati er þessum málaflokki illa sinnt og eitthvað þarf að gera til að bæta úr þessu. Brotið er á rétti nemenda og náms- og starfsráðgjafar ná alls ekki utan um öll þau hlutverk starfsins sem þeim er ætlað að sinna svo vel sé. Niðustöður rannsóknar sem ég gerði meðal náms- og starfsráðgjafa í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi 2014 – 2015 sýna svo ekki verði um villst að starfið er mjög krefjandi og 67% sögðust vera mjög þreytt andlega í lok vinnudags. Ráðgjöf við nemendur um persónuleg málefni var mjög stór hluti af persónulegri ráðgjöf á báðum skólastigum en 91% náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskólunum settu þáttinn í sæti eitt til þrjú og 84% í grunnskólunum.

Er ekki kominn tími til að gera eitthvað í þessum málum? Hvað finnst ykkur?

Réttindi barna

Nú langar mig aðeins til að beina sjónum mínum að réttindum barna. Gott er að hafa til hliðsjónar hvað fram kemur í Barnasáttmálanum okkar góða sem lögfestur var hér á landi þann 20. febrúar árið 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf.

Í flokknum umönnun segir: Barnasáttmálinn leggur þær skyldur á aðildaríkin að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála.

Ég verð því miður að segja að mér finnst ekki öllum börnunum okkar sinnt jafnvel innan skólakerfisins. Þau börn sem eiga undir högg að sækja eru þau sem hafa fengið greiningar af ýmsu tagi og þau börn sem eru á mörkum þess að falla undir greiningarnar, þau sem eru á jaðrinum ef svo má að orði komast. Sérkennslukvóti skólanna virðist vera af skornum skammti og aðeins ætlaður þeim sem eiga við verulega námslega erfiðleika að stríða. Sem betur fer fá þó flestir úthlutað 2 – 4 kennslustundum hjá sérkennara á viku ef þeir eru t.d. með lesblindu og þurfa því meiri aðstoð við lesturinn. Aðstoðin fer oft líka eftir því hvaða einkunn barnið hefur verið að fá í ákveðnum fögum. Þau börn sem aftur á móti eru með athyglisbrest eða á mörkum athyglisbrests fá oft ekki mikið og jafnvel ekki neitt af þessum kvóta. Samt eru vinsamleg tilmæli frá greiningaraðila oft á þá leið að barnið þurfi rólegra umhverfi til að ná betri einbeitingu, vera framarlega í skólastofunni, fá fyrirmæli á myndrænan hátt og helst einslega o.fl. o.fl.

Þá spyr ég: Hvernig á einn kennari að sinna þessu ef í fjölmennum bekk (21 – 28 eins og algengt er) eru kannski 5 – 7 nemendur með athyglisbrest? Hvernig á að skapa þessum börnum rólegt lærdómsumhverfi og gefa hverju þeirra fyrirmæli einslega? Hvað á að gera við hin á meðan kennarinn reynir að sinna þessu? Er það barninu með athyglisbrestinn fyrir bestu að vera sem mest inni í sinni heimastofu helst allar kennslustundir dagsins? (sjá Barnasáttmálann 3. gr.) Ja, ég bara er svona aðeins að velta þessu fyrir mér.

Endilega segið mér og öðrum lesendum, ykkar skoðun á þessum málaflokki. Ég held að ég sé ekki ein hérna úti sem hef þessa upplifun um þennan málaflokk eða hvað?

Styrkjum stoðirnar

Í mér er mikill hiti varðandi menntamál yngstu kynslóðarinnar. Ég kenni eins og er á yngsta stigi grunnskóla en áður hef ég kennt mest á miðstigi. Mér blöskrar hvernig vinnuumhverfi þessir ungu nemendur þurfa að lifa við og er boðið upp á í mörgum tilfellum. Bekkir eru of fjölmennir og oft er getublöndun innan bekkjar mjög mikil, margar greiningar og margt sem þarf að taka tillit til og þetta er einn umsjónakennari að sjá um. Það er alveg ljóst að ekki verður hægt að ná því besta fram í hverjum nemanda fyrir sig, hvorki námslega né félagslega þegar utanumhald er ekki meira en raun ber vitni.

Niðurskurður hefur verið mikill frá því árið 2008 og grunnskólarnir sluppu ekki við þessa köldu og óvægu niðurskurðar gröfu sem send var af stað. Allt bitnar þetta á blessuðu börnunum og þau fá ekki lengur þá þjónustu sem þau ættu að fá. Kennurum hefur jafnvel verið bent á að nota æðruleysið gagnvart því ráðaleysi sem við þeim blasir. Hvaða endemis rugl er þetta? Langflestir kennarar eru mjög metnaðarfullir og vilja skila frá sér góðu verki en það er meira en að segja það með fjölmenna og mikið getublandaða bekki að koma almennilega á móts við getu og þarfir hvers og eins svo vel sé. Það sárvantar allan skilning á stöðu mála og mér finnst brotið á rétti barna varðandi þá þjónustu sem þau eiga fullan rétt á.

Kennarar gefast upp á að starfa í svona brotnu umhverfi til lengdar og þegar upp er staðið verður þetta allt miklu dýrara fyrir þjóðfélagið. Kennarar og starfsfólk skóla kulna í starfi langt fyrir aldur fram og til verða æ fleiri vandamál sem tengjast heilsu og líðan þeirra.

Styrkjum stoðirnar hjá yngstu kynslóðinni með því að efla starfið í grunnskólanum og bjóða þar upp á mun betri og meiri þjónustu því það er í þágu okkar allra.