„Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“!
Þetta eru orð að sönnu og hafa þau heyrst við og við til fjölda ára en að mínu mati ættu þau að heyrast oftar: Af hverju? Jú, af því að það er 100% sannleikur sem felst í þeim og allt of margir gleyma hversu sterk áhrif þau geta haft á unga fólkið, bæði í ræðu, riti og athöfnum daglegs lífs.
Hvernig er t.d. umræðan við eldhúsborðið? Hvernig er fréttaflutningur fjölmiðla og annarra samfélagsmiðla? Hvaða viðhorf hefur fólkið í kringum okkur? Temur fólk sér almennt jákvætt viðhorf og reynir það að sjá hlutina í öðru ljósi en því hvernig þeir eru settir fram? Á einu máli eru margar hliðar, eins og á teningnum, dæmum varlega og alhæfum ekki!
Þegar börn eru annars vegar þá koma margir að uppeldi þeirra, þ.e. foreldrar, systkini, nánustu ættingjar, vinir foreldra og systkina og auðvitað starfsfólk leik- og grunnskóla. En hver ber ábyrgð á uppeldi og námi barnsins? Hver á að gera hvað, hvar og í hverju liggur ábyrgðin? Það þarf marga fagaðila til að reisa eitt hús og að sama skapi þarf marga aðila til að koma einu barni til manns. Ef samvinnan og samstaðan í byggingaferlinu er ekki til staðar þá veikjast stoðirnar, það gefur auga leið. En hvernig getum við í sameiningu styrkt þessar stoðir og séð til þess að grunnurinn sé sterkur og stöðugur?
Skoðum í stuttu máli eina mikilvæga hlið grunnskólakerfisins –
Fjárúthlutun Sveitarfélaga til grunnskólanna er oftar en ekki mjög að skornum skammti. Það er einmitt á grunnskólastigi sem börnin þurfa að fara að standa meira á eigin fótum. Smátt og smátt eykst álagið bæði námslega sem og félagslega. Það á ekki endilega svo vel við alla þetta umhverfi þar sem mörg börn eru saman komin inni í einni kennslustofu. Kennarar miðla efni, fróðleik til nemenda og vonast til þess að þeir geri það nægilega skýrt og faglega til þess að nemendur geti nýtt sér það og byggt ofan á. En staðreyndin er sú að umhverfið í kennslustofunni er ekki alveg svona einfalt, það eiga margir erfitt með einbeitingu, geta illa setið kyrrir, eru sífellt að hugsa eitthvað allt annað, finnst sessunauturinn meira spennandi en efnið sem verið er að miðla í kennslustundinni o.s.frv. Þegar kennslustundinni lýkur hefur kennarinn mjög líklega ekki náð að halda sig 100% við áætlun, þar sem hann þurfti að sinna mörgum og fjölbreyttum málum sem upp komu og tengdust ekkert kennslunni sjálfri eða efninu.
Ég tel að í hverjum skóla séu börn sem eiga mjög erfitt uppdráttar eins og kerfið er í dag. Úrræði eru lítil og engin og ef einhver, þá verulega seinvirk og máttlaus, því miður. Ég er á þeirri skoðun að ef við gætum gripið snemma eða fyrr inn í með úrræði hjá börnunum sem eru á jaðrinum þá næðum við að rétta þau fyrr við og þau myndu þrífast betur í skólakerfinu og vera hamingjusamari.
Stjórnendur og oft kennarar í grunnskólum eru þeir aðilar sem fá allar skammirnar frá sárum og reiðum foreldrum þegar ljóst er að ekki er hægt að veita börnum þeirra meiri þjónustu en öðrum, þrátt fyrir að þurfa á því að halda og öllum sé það ljóst.
Þegar upp er staðið varðandi þennan þátt þ.e. að nemendur fái viðeigandi aðstoð innan veggja grunnskólans, er ábyrgðin á höndum Sveitarfélaga, þaðan sem fjárveitingin kemur og er hún oftar en ekki verulega skorin við nögl eins og áður sagði. Hversu oft ætli stjórnendur grunnskóla hafi sest niður með sveitarstjórnarmönnum eftir að hafa séð fjárúthlutun næsta skólaárs og óskað eftir meiru? Ég leyfi mér að fullyrða að það gerist hjá ansi mörgum ár hvert en því miður eru óskirnar ekki uppfylltar að fullu og þá hefst „sorteringin“. Hvaða börn þurfa „mest“ á meiri aðstoð að halda?
Sorglegt en satt, því miður!
Ábyrgð foreldra –
Hver er ábyrgð foreldra hvað varðar nám barna þeirra til 16 ára aldurs?
Eitt dæmi: Ef t.d. barn fer í frí á skólatíma og missir úr skóla í einhverja daga, hvað þá? Það gefur augaleið að ekki verður skólastarfið sett á „hold“ á meðan þannig að barnið sem fór í frí ætti að hafa með sér námsbækur til að halda áætlun eða vinna sér í haginn fyrir ferðina með aðstoð foreldra sinna. Það er sem sagt alfarið á ábyrgð foreldra að sjá til þess að barnið þeirra nái að halda í við námsefnið út frá kennsluáætlunum. Það er ekki á ábyrgð skólans/kennarans að miðla efni til barnsins og kenna því það efni sem það fór á mis við eftir að það kemur til baka úr fríinu. Foreldrar eiga að fylgjast vel með námi og ástundun barna sinna alla grunnskólagönguna en auðvitað á ábyrgðin smátt og smátt að verða meiri hjá barninu eftir því sem það verður eldra og þroskaðra. Sumir þurfa meiri aðstoð við námið en aðrir og í lengri tíma og er það hinn eðlilegasti hlutur. Munum hverjar fyrirmyndirnar eru, foreldrarnir, kennararnir, vinirnir, fræga og þekkta fólkið o.fl. o.fl. Rannsóknir hafa sýnt að foreldrar eru þeir aðilar sem oftast eru nefndir sem fyrirmyndir barna sinna og jafnframt spila þeir stærsta hlutverkið í að móta börnin sín. Ein „röng“ skilaboð geta haft mikil áhrif á framhaldið, þess vegna er svo mikilvægt að vanda sig alltaf alla daga.
Niðurstaða –
Við þurfum öll að sitja við sama borð, róa í sömu átt, vera saman í liði. Öll höfum við hlutverk, þau geta verið keimlík en samt á köflum ólík. Verum óhrædd við að eiga samtal og hugsa í lausnum. Samvinna heimilis og skóla er mikilvæg fyrir alla og styrkir okkur öll. Það besta fyrir barnið er að finna að starfsmenn skólans og foreldrar þeirra vinni saman á jákvæðan og uppbyggilegan hátt með velferð þeirra að leiðarljósi, fyrst og fremst.
„Saman stöndum vér og sundruð föllum vér“, þetta er háfleygt en svo satt.
Takk fyrir mig að sinni!
Hjördís B. Gestsdóttir