Raunveruleikinn filterslaus

Þetta kostar!

Hvernig eigum við að ná til eyrna þeirra sem hafa stjórnina þegar kemur að því sem skiptir okkur öll máli?

Ábyrgðin er okkar allra, foreldra/forsjáraðila, heilbrigðiskerfis, menntakerfis og samfélagsins eins og það leggur sig. Breyttir tímar, auðveldara aðgengi að ýmsu óæskilegu efni með þróun tækninnar hefur mikil áhrif á æskuna og mótun unga fólksins okkar. Grunn gildi og áherslur hafa samt sem áður ekki breyst. Við þurfum öll ást, umhyggju, væntumþykju, áheyrn, tilgang, skilning o.s.frv.

Við erum mörg ólík á svo margan hátt, pössum ekki í sama boxið og eigum heldur ekkert að gera það. En öll eigum við rétt á því að fá að blómstra út frá okkar eigin styrkleikum, áhuga og getu.

Í drauma heimi værum við öll jafnfætis, sama hvaðan við komum, hvaðan sem uppruni okkar er, hver svo sem okkar saga er. Við viljum að allir geti fundið til öryggis og að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið sér störf við hæfi. Það væri draumur ef allir ættu sterkt og gott tengslanet, að fólk gæti leitað til fjölskyldu sinnar og vina þegar á móti blæs. En raunveruleikinn er því miður ekki alveg svona svartur og hvítur.

Fólk, alls konar fólk, er duglegt að setja sig í dómarasæti og dæma bæði einstaklinga og hópa fólks. Þetta fólk lætur vel í sér heyra og þykist vita allt og betur en allir aðrir. Sumir telja sér trú um að þeir séu „með þetta“, að lausnin sé einhver einföld uppskrift sem allir eigi að fara eftir og tileinka sér og þá gangi allt að óskum fyrir alla.

Við vitum það flest að margt í kerfum okkar hér á landi er að virka illa, mjög illa, en vonandi samt eitthvað vel. Það hjálpar ekki að benda til allra átta og kenna hinum og þessum um. Við vitum að ef við leggjum saman styrk okkar allra þá getum við áorkað svo fáránlega miklu á stuttum tíma í þágu okkar allra. Við þurfum að hugsa fram á við, vera lausnamiðuð og hætta að hengja okkur á kjánalegar fullyrðingar og sjónarmið þeirra sem ekki eru á „gólfinu“! Það þarf ekki fleiri nefndir og ráð eða starfshópa sem ekki eru nú þegar til staðar, nýtum mannauðinn sem við höfum nú þegar og virkjum fólk til samstarfs.

Það er svo mikið talað um að það skorti ekki fjármuni í skólakerfið okkar t.d….. í alvöru! Hvaða útreikningar eru það eiginlega? Það segir sig sjálft að við verðum að gera svo miklu betur með ungdóminn okkar og mæta þeim með fjölbreyttum úrræðum sem henta hverjum og einum „núna“, ekki eftir eitt til þrjú ár, þar sem biðlistarnir eftir sérfræðiþjónustu lengjast dag frá degi. Það er líka hægt að mæta auknum vanda grunnskólabarna með því að auka þjónustu sérfræðinga innan skólakerfisins sem dregur m.a. úr flækjustigi foreldra/forsjáraðila. Og til lengri tíma litið, ef vel er hlúð að yngri kynslóðinni, verður það „ódýrara“ fyrir samfélagið í heild sinni. Í þessu fellst að mínu viti svokölluð „snemmtæk íhlutun“!!

Það á alls ekki að þurfa að berjast fyrir þessu, þetta eiga að vera mannréttindi og okkur öllum til heilla.

Styrkjum stoðirnar, byggjum ofaná góðan og styrkan grunn með markvissum og faglegum hætti.

Ég læt þetta duga að sinni, en ég eins og svo margir aðrir, hef sterkar skoðanir á þessum málum og brenn fyrir velferð fólksins í landinu og þá sérstaklega yngri kynslóðinni. Það væri auðvelt að skrifa langan pistil og henda fram alls konar hugmyndum um aðgerðir ýmiskonar sem gætu gagnast okkur, en ég læt það liggja í mínum huga enn sem komið er.

Höfundur er fyrst og fremst móðir, dóttir, eiginkona og vinkona. En er einnig grunn- og leikskólakennari, skólastjórnandi og náms- og starfsráðgjafi.

Færðu inn athugasemd