Það er okkur öllum ljóst að starfsumhverfi kennara hefur breyst heilmikið á síðustu árum. Margt ber að nefna því tengdu og ekki hefur almennilega verið unnið að þeirri þróun og innleiðingu sem til þarf svo að vel megi heppnast að mínu mati. Hafa þarf í huga að skólar eru menntastofnanir, ekki meðferðastofnanir, en stundum virðist vera litið til skólanna og þeirra sem þar starfa sem sérfræðinga í málefnum barna frá a-ö, en svo er ekki. Ef við hugum að starfsumhverfinu, þá er þar margt sem þarf að beina sjónum að með bættari árangur í huga, bæði hvað varðar nemendur, kennara og annað starfsfólk. Ég er þess fullviss að flestir kennarar hafi viljann til að gera ávallt sitt allra besta við að mæta þörfum nemenda sinna, uppruni þeirra og þjóðfélagsleg staða skiptir ekki máli hvað það varðar.
Það sem vantar þó upp á hér eru bjargráð, úrræði, leiðsögn og tími. Kennarar eru sérfræðingar, við getum öll verið sammála um það, en það þarf samt sem áður að styðja við þá og leiðbeina jafnt og þétt í takt við þá þróun sem á sér stað í þjóðfélaginu. Þessum þætti er illa sinnt og hér þurfum við að staldra við og leggja miklu meira af mörkum. Ég tel að einnig eigi að styrkja samvinnu við heimilin, foreldrar eiga að vera í góðu samstarfi við skólann varðandi barnið sitt og allir þurfa að vinna að sama marki, þ.e. að nemandanum/barninu líði sem best, nái að fóta sig og sjái árangur af námi sínu.
Ég finn vel fyrir kynslóðabilinu sem er til staðar þegar ég með minn bakgrunn, menntun, reynslu og þekkingu, lít yfir farinn veg og í mörgu er ég óttaleg risaeðla. En það er allt í lagi, við getum miðlað, frætt og lært eitthvað nýtt á hverjum degi samhliða, enda er það gott og gilt. Mannlegi þátturinn er samt sem áður alltaf til staðar og afar mikilvægt fyrir okkur að geta sett okkur í spor annarra, sýnt væntumþykju, samhygð og skilning eins langt og það nær. Margt af okkar unga fólki í dag sýnir ekki þessa hlið á sér og mér er brugðið að sjá og heyra samskipti milli þeirra oft á tíðum. Aga- og virðingarleysi er áberandi hjá mörgum börnum allt frá leikskólaaldri, þau geta verið hreint og beint dónaleg og hrokafull, gera bara það sem þeim sýnist og hafa neikvæð áhrif út í hópinn.
Þegar upp er staðið og staldrað við þá skulum við setja upp eitt lítið dæmi: Bekkur í unglingadeild grunnskóla, samtals 26 nemendur. Samsetningin er 80% Íslendingar og 20% af erlendum uppruna, aðflutt. Af þessum 21 nemenda sem eru Íslendingar eru:
- þrír með greiningu um ADHD
- tveir með greiningu um ADHD, kvíða og þunglyndi
- þrír með dyslexíu
- tveir á einhverfurófi og með greininguna ADHD og félagsfælni
- einn nemandi er í skólaforðun
- þrír nemendur glíma við neikvæðan aga.
Þetta eru 14 nemendur í þessum bekk sem þarf að funda reglulega með foreldrum eða forsjáraðilum og stuðningsteymi innan skólans og í einhverju tilfellum með stuðningsteymi sem nær út fyrir veggi skólans eins og frá barnavernd o.fl. Stundum er fundað tvisvar á önn, stundum á 6 vikna fresti, stundum á 3 vikna fresti o.s.frv. eins og gengur og þetta dæmi er mögulega ögn ýkt.
Nemendurnir sem eru af erlendum uppruna eru allir búnir að vera á Íslandi í innan við ár og sækja íslenskukennslu til kennara með áherslu á íslensku sem annað tungumál. Önnur fög eru kennd í bekk eins og samfélagsgreinar, náttúrugreinar, danska (flestir undanþegnir henni), enska, verkgreinar, íþróttir og sund.
Bakgrunnur þeirra er margs konar, upplifanir fjölbreyttar og staða þeirra illa þekkt. Oft tala þau ekki ensku og eru auðvitað bara rétt nýbyrjuð að læra íslenskuna. Þau eru óörugg, jafnvel hrædd, sorgmædd, eiga stutta fyrri skólagöngu að baki, hafa orðið fyrir áfalli eða áföllum í heimalöndum sínum. Sum eru jafnvel ekki með foreldrum sínum, forsjáraðili þeirra hér á landi er mögulega eldra systkini.
Í flestum grunnskólum landsins fara nemendur í unglingadeild í kennslu til sinna faggreinakennara, þ.e.a.s. það er ekki einn og sami kennarinn sem kennir öll fögin eins og tíðkast á yngri stigum. Nemendur fara á milli stofa til að sækja kennslu í hverju fagi fyrir sig hjá þeim kennara sem hefur sérhæft sig í greininni. Fyrir marga nemendur reynist þetta fyrirkomulag þeim erfitt, oftast venjast þeir þessu þó, en fyrir suma gerist það ekki, eða illa og seint. Það er alveg ljóst að þetta fyrirkomulag hentar alls ekki öllum vel og getur haft neikvæð áhrif á líðan og árangur.
Þessi mynd sem ég hef dregið upp hérna er líklega ýkt eins og áður segir en ég reikna með að flestir kennarar kannist þó við eitthvað keimlíkt.
Hér getum við leitt hugann að faglegri skuldbindingu kennara en hún er mikilvæg breyta þegar litið er til áhrifa þeirra á nemendur eins og hvað varðar hvatningu, árangur, viðhorfi til náms og að stunda skólann vel. Nauðsynlegt er að hver og einn fagaðili innan stéttarinnar sé meðvitaður um siðferðilegar skuldbindingar sínar í því mikilvæga starfi sem kennslan er. Siðferðilegar skuldbindingar fylgja því að verða kennari, m.a. snýst hún um faglega skuldbindingu sem felur meðal annars í sér að fylgja námsskrám, beita sér fyrir jafnrétti og stuðla að því að hafa jákvæð áhrif á líf nemenda. Þær dygðir sem er mikilvægt að sýna í verki m.a. til að verðskulda traust samfélagsins eru trúnaður, heilindi og heiðarleiki, án þeirra verða stoðirnar veikar. Í skuldbindingu felst innri hvatning, vilji kennarans til að efla sig í starfi og að skila frá sér sem bestum árangri öllum stundum. Talið er að til þess að kennarar finni til faglegrar skuldbindingar þurfi þeir á að halda sterkri sjálfsmynd, þekkja eigin getu, styrkleika sem veikleika.
Kraftur samstarfs á vinnustað getur verið mikill og nauðsynlegt er að kennarar átti sig á því að þeir eru ekki einir að störfum, stéttin þarf að standa saman, styrkja og styðja við hvort annað í starfi. Margt hefur breyst hvað varðar samstarf kennara frá því sem áður var, þegar þeir unnu oft einangraðir hver í sinni kennslustofu með sinn nemendahóp. Nú á dögum er talað um hina nýju fagmennsku en í henni felst mikil samvinna og miðlun þekkingar og felur hún einnig í sér að kennarar verði opnari fyrir áhrifum. Traust og heiðarleiki eru hugtök sem skipta gríðarlega miklu máli í störfum stéttarinnar, hverjum og einum ber skylda til að vanda sig í öllum samskiptum og samvinnu og grafa ekki undan heiðri eða mannorði samstarfsmanna sinna. Samstarf er þáttur sem að mínu mati skipar verulega stóran og mikilvægan sess innan ríkjandi menningar skóla.
Sá sem velur sér að mennta sig til kennara og fer svo að starfa sem slíkur þarf að vera gæddur mörgum og fjölbreyttum kostum og hæfileikum. Störf kennara krefjast mikils af honum og á síðustu misserum hefur starfið orðið æ flóknara og kröfuharðara. Ef skuldbinding við starfið á að vera öflug og sterk þarf að huga vel að allri umgjörð þess. Faglega skuldbundnir kennarar leitast við að þróa og þroska sig í starfi, eru tilbúnari til þátttöku starfsþróunar og leitast eftir samstarfi og samvinnu við samkennara og aðra hagsmunaaðila. Megintilgangur kennarastarfsins er ávallt sá að bæta árangur nemandans með öllum tiltækum leiðum sem í boði eru innan siðferðilegra marka.
Það þarf að taka höndum saman og styðja og styrkja það sem fyrir er og byggja svo ofan á það með markvissum og árangursmiðuðum sannreyndum hætti. Taka þarf tillit til þessa breytta starfsumhverfis og meta að nýju hvernig standa eigi að stuðningi við kennara með það að marki að hægt sé að ná utan um starfið í heild sinni ávallt með árangur í huga.
Kærleikskveðja,
Hjördís