Margir kennarar og annað starfsfólk í grunnskólum finna svo um munar fyrir auknu álagi og meiri streitu í starfi en oft áður.
Hlutverk kennara er margþætt, en fyrst og fremst snýst það um að kenna nemendum skv. aðalnámskrá ýmiskonar námsgreinar þar sem markmiðið er að auka þekkingu, hæfni og leikni nemenda. Kennarar vinna að því að vekja og viðhalda áhuga nemenda á námi, veita þeim handleiðslu á sem fjölbreytilegastan hátt ásamt því að stuðla að góðum starfsanda og vinnufrið meðal nemenda.
Auk þess þarf að hlúa að hverjum og einum nemanda varðandi líðan, fylgjast vel með að allir blómstri á sem jákvæðastan hátt og bæti við sig þekkingu á öllum sviðum náms. Hlutverk umsjónarkennarans er skilgreint í aðalnámskrá (bls. 31) á eftirfarandi hátt: „Umsjónarkennari tekur öðrum starfsmönnum fremur ábyrgð á námi nemenda sinna, þroska þeirra, líðan og velferð. Umsjónarkennari leggur sig fram um að kynnast nemendum sínum sem best, foreldrum þeirra og aðstæðum. Hann vinnur náið með þeim kennurum sem kenna nemendum í hans umsjá, safnar saman upplýsingum og kemur þeim áleiðis innan skóla og til foreldra í þeim tilgangi að gera foreldrum kleift að taka þátt í ákvörðunum sem varða barn þeirra og skólastarfið. Umsjónarkennari gegnir lykilhlutverki í farsælu samstarfi heimila og skóla og er megintengiliður milli skóla og heimila“.
Upplifun margra kennara og starfsmanna í grunnskólum er að áskoranir eru fleiri, flóknari og stærri í sniðum en oft áður. Agi nemenda er í mörgum tilfellum ábótavant á marga ólíka vegu og birtingamyndin fjölbreytt. Virðing fyrir kennurum hefur farið hratt dvínandi, metnaður fyrir námi og námsleg geta nemenda eru breytur sem eru meira áberandi. Hatursorðræða, fordómar, markleysi og hegðun sem almennt er ekki viðurkennd meðal almennings er áhyggjuefni. Samfélagsmiðlar og snjalltækja notkun er ekki að hjálpa.
Stoðþjónusta grunnskólanna nær ekki utan um alla þá nemendur sem á námsaðstoð þurfa að halda og því miður þá er heimanámi, þá helst lestri, ekki eða illa sinnt á heimilum oft á tíðum. Þegar í ljós kemur að illa gengur hjá nemanda þá er alltaf spurt: „Hvað er skólinn að gera“? Einhverjir segja strax: „Skólinn er ekki að standa sig!“ Stundum er það að mörgu leyti rétt, því miður, enda er stakkurinn sniðinn svo þröngur að það eru komnar saumsprettur á allar hliðar þar sem við missum sjónar á einhverjum nemendum sem smjúga þar út.
Skólar fá ákveðna fjárúthlutun ár hvert sem fer m.a. eftir nemendafjölda við skólann og út frá ákveðnum greiningum sem falla undir fötlunarflokk. Það er ekki til neitt sem heitir viðbótarfjármagn miðað við þyngsl skóla t.d. miðað út frá fjölda nemenda sem koma frá öðrum löndum, nemendum með flókinn vanda, námslegan sem félagslegan o.s.frv. Kennarar og starfsfólk skóla bæta endalaust við sín störf og hlaupa hraðar. Stór hluti vinnutímans fer í fundarsetur, útfyllingu eyðublaða og matslista, símtöl, tölvupóstsendingar og leit að úrræðum til að mæta þörfum nemenda sem eru t.d. í bullandi skólaforðun.
Kennarar og starfsfólk skóla bera hagsmuni nemenda fyrir brjósti og vilja svo sannarlega leggja sig fram við að mæta öllum nemendum á þeirra forsendum og gera eins vel og það mögulega getur miðað við aðstæður. Kerfið er því miður mjög máttlaust og hægvirkt, úrræðin eru allt of fá og á meðan er spólað í hamstra hjóli.
Það á ekki að gera átak til að ná betur utan um batteríið, það á að auka fjármagn til kerfisins svo um munar, styrkja stoðirnar strax frá byrjun, ekki þegar allt er komið í óefni. Það verður að vanda til verka og huga mun betur að mannlega þættinum, vera fagleg og takast almennilega á við þetta mikilvæga hlutverk sem við öll berum ábyrgð á í sameiningu.
Nú er komið nóg, hættum að tala um hlutina, látum hendur standa fram úr ermum og bregðumst við svo eftir því sé tekið og það strax. Það er nauðsynlegt að halda í allt okkar góða fólk sem starfar með börnum og ungmennum, gerum allt sem í okkar valdi stendur til að gera starfsumhverfi þeirra lífvænlegt, við höfum ekki efni á því að missa það frá okkur til annarra starfa.
Virðingarfyllst,
Hjördís B. Gestsdóttir
Kennari, náms- og starfsráðgjafi og stjórnandi í grunnskóla