Í síðustu viku var birt viðtal við mig vegna líkamsárásar sem sonur minn varð fyrir algjörlega af tilefnislausu. Það var ekki auðveld ákvörðun að verða við beiðninni um viðtal en eftir að hafa ráðfært mig við nokkra vini og fagaðila, þá ákvað ég að láta slag standa. Ég vildi þó fyrst og fremst vekja athygli á þessum málaflokki þar sem svona hátterni hefur verið að aukast undanfarin misseri og unga fólkið okkar veit af þessu en segir fátt eða ekkert um atvikin. Fyrir mörgum eða flestum þeirra er þetta orðið eðlilegur partur af því sem getur átt sér stað í daglegu lífi.
Ég er þess fullviss að ekki rata öll svona mál inn á borð lögreglunnar enda ekki allir sem treysta sér með þau þangað. Í fréttinni umræddu var rætt við lögregluna um mál sem þessi og þar kemur fram að nokkuð er um svona tilefnislausar árásir, árásarmennirnir búa sér oft til ástæður eða einhver orðrómur hefur farið af stað sem enginn fótur er fyrir. Komið var inn á að stundum verði ólögráða einstaklingar fyrir árásum sem þessum og að þá sé unnið með málið í samstarfi við foreldra og barnavernd.
Það sem ég vildi og reyndi í viðtalinu að koma á framfæri en klippt var út, í sambandi við mál af þessu tagi voru m.a. vangaveltur um það hvernig unnið er í málum þeirra einstaklinga sem eru orðnir lögráða, sérstaklega þeim yngstu? Hvernig aðstoð er í boði fyrir þá og hver gefur þeim upplýsingar um hvert þeir geta leitað? Hvað felur verklag lögreglunnar í sér í svona málum fyrir 18 ára og eldri brotaþola? Hvað með aðstandendur, foreldra/forráðamenn, er eitthvað kerfi sem grípur þá? Þarf ekki að huga að aðstandendum gerenda og sjálfum gerendum hvað varðar ráðgjöf og slíkt? Þarf fólk að finna út úr öllu sjálft eða á lögreglan að benda á úrræði fyrir það, hvert það getur leitað o.s.frv.? Barnavernd á að vera til verndar og aðstoðar til 18 ára aldurs en svo tekur bara ekkert við, engin brú, öllum hent í djúpu laugina!
Eins og allir vita þá er mannfólkið misjafnt eins og það er margt og aðstæður þeirra ólíkar. Sumir geta tekist á við áföllin að mestu leyti upp á eigin spýtur með aðstoð fjölskyldu og vina. Aðrir hafa hvorki burði, getu né bakland sem stutt geta við þá þegar áföllin gerast.
Ég hef rætt þessar hliðar við nokkuð marga og þar á meðal fagfólk á ýmsum sviðum og allir svara í sömu mynt, að það er ekkert og enginn sem virðist grípa þetta fólk.
Það segir sig sjálft að það þarf að skoða hlutina frá mörgum hliðum, efla þjónustuna, skýra verkferla og auðvelda fólki aðgengi að aðstoð fagaðila, kerfið þarf að vera skilvirkt og augljóst.
Það er svo einkennilegt að upplifa það að þegar barn verður 18 ára að þá eigi það að kunna og skilja allt sjálft. Á núll einni er barnið orðið fullorðið og það fylgja engar ,,leiðbeiningar” ef svo má að orði komast. Kannski er það ein ástæða þess að sumir veigra sér við að leggja fram kæru vegna líkamsárásar enda er enginn sem útskýrir neitt nema þú spyrjir nógu margra spurninga. Aðstæður fólks eru svo rosalega misjafnar, sumir hafa bara alls engann sem getur leiðbeint þeim og aðstoðað. Er þetta eitthvað skoðað yfir höfuð? Við verðum í sameiningu að gæta að hvort öðru og muna að við erum öll manneskjur og við skiptum öll jafn miklu máli!
Ég vona svo sannarlega að einhver grípi boltann og skoði þessi mál ofan í kjölinn og að svör fáist sem eru skýr og skiljanleg fyrir alla. Við berum öll ábyrgð á einn eða annan hátt, þöggun er ekki af hinu góða. Við þurfum að standa saman, öðruvísi bætum við ekki neitt.
Takk fyrir mig,
Hjördís (fyrst og fremst móðir og svo allt hitt)