Kennarar sem fagstétt og fagleg skuldbinding í starfi

Pistill birtur á vef Kennarasambands Íslands í dag 10. desember 2021

Kæri félagsmaður,

hvort sem þú starfar í leik-, grunn-, framhalds- eða tónlistarskóla þá er það hlutverk mitt sem næsta kjörna varaformanns KÍ ásamt nýkjörnum formanni og öðru góðu starfsfólki Kennarasambands Íslands að gæta þinna hagsmuna á marga ólíka vegu. Allir kennarar og stjórnendur eru mínir stéttarfélagar og við erum ein heild. Vellíðan í starfi skiptir sköpum fyrir gæði náms og árangur og því ber okkur að hlúa sérstaklega að því.

Kennarastarfið er margslungið og því fylgir mikil ábyrgð. Fagleg skuldbinding býr í kennurum okkar upp til hópa og það er eitt af því sem er mikilvægt að efla enn frekar og varðveita. Þær dygðir sem nauðsynlegt er að sýna í verki m.a. til að verðskulda traust samfélagsins er trúnaður, heilindi og heiðarleiki, án þeirra verða stoðirnar veikar. Í skuldbindingunni felst einnig innri hvatning, viljinn til að efla sig í starfi og skila frá sér sem bestum árangri öllum stundum. Til þess að kennarar finni til faglegrar skuldbindingar þurfa þeir á sterkri sjálfsmynd að halda, þekkja eigin getu, styrkleika sem og veikleika. Þeir þurfa líka að finna til hvers er ætlast af þeim og hafa skýra sýn og stefnu í starfi sínu. Hér beinast spjótin að leiðtogum stéttarinnar þar sem þeim ber að stuðla að því að skapa kennurum tækifæri til þess að efla sig enn frekar í starfi á fjölbreyttan hátt, hlusta á óskir þeirra og væntingar og hjálpa til við að greiða leið þeirra.

Kraftur samstarfs á vinnustað getur verið mikill og nauðsynlegt er að kennarar átti sig á því að þeir eru ekki einir að störfum, stéttin þarf að standa saman, styrkja og styðja við hvort annað í starfi. Margt hefur breyst hvað varðar samstarf kennara frá því sem áður var, þegar þeir unnu oft einangraðir hver í sinni kennslustofu með sinn nemendahóp. Nú á dögum er talað um hina nýju fagmennsku en í henni felst mikil samvinna og miðlun þekkingar og felur hún einnig í sér að kennarar verði opnari fyrir áhrifum. Traust og heiðarleiki eru hugtök sem skipta gríðarlega miklu máli í störfum stéttarinnar, hverjum og einum ber skylda til að vanda sig í öllum samskiptum og samvinnu og grafa ekki undan heiðri eða mannorði samstarfsmanna sinna. Samstarf, samtal og samvirkni er það sem ég vil sjá enn meira af í störfum okkar, á vettvangi og milli skólastiga og skólagerða, fyrir því vil ég beita mér.

Þegar kennarastarfið og skuldbinding þess er ígrundað má sjá að í því felast margar breytur. Sá sem velur sér að mennta sig til kennara og fer svo að starfa sem slíkur þarf að vera gæddur mörgum og fjölbreyttum kostum og hæfileikum. Störf kennara krefjast mikils af honum og á síðustu misserum hefur starfið orðið æ flóknara og kröfuharðara. Ef skuldbinding við starfið á að vera öflug og sterk þarf að huga vel að allri umgjörð þess. Faglega skuldbundnir kennarar leitast við að þróa og þroska sig í starfi, eru tilbúnari til þátttöku starfsþróunar og leitast eftir samstarfi og samvinnu við samkennara og aðra hagsmunaaðila. Megintilgangur kennarastarfsins er ávallt sá að bæta árangur nemandans með öllum tiltækum leiðum sem í boði eru innan siðferðilegra marka. Við störfum undir formerkjum faglegs lærdómssamfélags og menntunar fyrir alla og okkur ber að finna leiðir í sameiningu til þess að geta staðið stolt undir því sem ein heild. Menntastefna til ársins 2030 hefur verið lögð fram og nú reynir á að innleiðing hennar fari fram með faglegum hætti í samvinnu og sátt við okkur öll. Hér skiptir máli að sameinast um það verkefni og vanda til verka svo okkur takist vel til. Stuðningur forystunnar þarf að vera til staðar og sameiginlegur skilningur og sýn okkar allra á áherslur stefnunnar í heild.

Ég er fyrst og fremst kennari og það sem að ofan er ritað á við um mig sjálfa líkt og ykkur hin burt séð frá því hvort ég starfi eins og er sem kennari, náms- og starfsráðgjafi, stjórnandi eða sem tilvonandi varaformaður Kennarasambands Íslands.

Eins og áður hefur komið fram í mínum skrifum þá er ég afar stolt af minni fagstétt og ég tel hana gera kraftaverk alla daga. Mannauðurinn er mikill og dýrmætur og nauðsynlegt að við hlúum vel að öllum og sköpum gott og öruggt starfsumhverfi. Ánægja og vellíðan starfsmanna skilar sér í bættari skólabrag heilt yfir og hefur það bein áhrif á vellíðan og árangur nemenda, þetta hafa niðurstöður ýmissa rannsókna stutt við.

Varaformaður KÍ starfar í nánu samstarfi við formann félagsins þar sem þeir leiða saman hesta sína í öflugu samstarfi við aðildarfélögin átta. Ég tel að með faglegum og sveigjanlegum stjórnunarháttum, heiðarlegu og opnu samtali ásamt lausnamiðuðum nálgunum og valdeflingu kennara náum við árangri í sameiningu.

Ég tel mig hafa það sem þarf til fyrir embætti varaformanns KÍ þar sem ég mun leiða þessa öflugu fylkingu við hlið nýkjörins formanns hennar. Ef ég verð fyrir valinu og mér treyst fyrir þessu stóra og mikilvæga verkefni mun ég leggja mitt af mörkum við að vinna ötullega að hagsmunum félagsmanna aðildarfélaganna allra í góðu og öflugu samstarfi. Ég efast ekki um að metnaður minn og virkni í starfi muni nýtast og hjálpa mér að vera ykkur öllum, kæru félagsmenn aðildarfélaga Kennarasambands Íslands, góður og kröftugur stuðningur.

Virðingarfyllst,

Hjördís B. Gestsdóttir

Færðu inn athugasemd