Ég vil verða næsti varaformaður Kennarsambands Íslands

Pistill birtur á vef KÍ mánudaginn 6. desember 2021

Í dag er komið að því að kennarar geri upp hug sinn um hver skuli vera næsti varaformaður Kennarasambands Íslands.

Valið stendur á milli mín, Hjördísar B. Gestsdóttur og sjö annarra frambærilegra frambjóðenda sem allir hafa brennandi áhuga á menntamálum og vilja leggja sitt af mörkum við að leiða fagstétt kennara í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistaskólum landsins. Ég leitast eftir ykkar stuðningi í kosningum til varaformanns KÍ sem fram fara dagana 6. – 13. desember og vil ég hvetja alla til að nýta kosningarétt sinn.

Starfsferill minn hófst um aldamótin þegar ég fyrst hóf störf með börnum í leikskóla. Áður hafði ég, sem ung stúlka, mikið verið að passa börn og réð mig í vist á sumrin til að líta eftir litlum krílum. Í upphafi stóð ekki til að staldra lengi við á þeim vettvangi, en núna tæplega 22 árum síðar starfa ég enn með börnum og ungmennum. Ég hef brennandi áhuga á öllu sem snýr að menntamálum og hef jafnt og þétt bætt við mig þekkingu. Stundaði fyrst nám í leikskóla- og grunnskólakennarafræðum, bætti við mig námi í náms- og starfsráðgjöf og lauk nýlega námi í stjórnun og forystu í faglegu lærdómssamfélagi. Ég hef í gegnum störf mín á fjölbreyttum vettvangi átt farsælt samstarf við ólíka einstaklinga og fagfólk á breiðu sviði kennslufræðinnar og tekið þátt í fjölmörgum stærri sem smærri verkefnum tengdum skólaþróun og félagsstörfum, sem kennari, stjórnandi og náms- og starfsráðgjafi. Reynsla mín við nám og störf undanfarin ár hefur leitt mig að þeirri niðurstöðu að ég gæti látið gott af mér leiða sem ein af forystumönnum Kennarasambands Íslands og því leita ég eftir ykkar stuðningi.

Undanfarna daga og vikur hef ég átt spjall við kennara og aðra sérfræðinga sem starfa í skólum landsins um málefni sem brenna helst á þeim þegar litið er til menntamála. Það hefur verið gefandi og áhugavert að hlusta á það sem fram hefur komið í þessum samtölum þar sem kennarar hafa ekki legið á skoðunum sínum. Öll málefnin eru jafn mikilvæg og góð viðbót við umræðuna sem fyrir er.

Varaformaður Kennarasambands Íslands starfar í nánu samstarfi við formann KÍ og leiðir ásamt honum breiðfylkingu kennara í aðildarfélögum Kennarasambandsins. Varaformaður er faglegur leiðtogi sem leitast við að skapa sameiginlega sýn allra félagsmanna og lítur á hópinn sem eina liðsheild. Með valdeflingu kennara, virkri hlustun, nútímalegum nálgunum, opnum og heiðarlegum samskiptum náum við í sameiningu að efla okkar stétt og ná enn meiri árangri.

Hljóti ég ykkar stuðning mun ég leggja áherslu á að bæta starfsumhverfi kennara með fjölbreytileika okkar í huga. Kennarar eru fagmenntaðir sérfræðingar, þeir þróa sig áfram í starfi alla daga í takt við þróun samfélagsins. Það er m.a. hlutverk forystu Kennarasambands Íslands að vinna að því að skapa kennurum meiri sveigjanleika og tækifæri til þess að geta sinnt þeirri þróun á faglegan hátt. Áherslur skólastarfsins hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár meðal annars með aukinni tækni og nýju námsmati. Nú horfum við til menntastefnu á Íslandi til ársins 2030 og mikilvægt er að innleiðing hennar gangi farsællega fyrir sig. Til að svo verði þurfum við að sameinast um fagleg vinnubrögð með gæði menntunar og árangur í huga. Þar eru kennarar, með stuðningi forystunnar, í lykil hlutverki.

Allir skólar eru lærdómssamfélag og starfa undir hugmyndafræðinni um menntun fyrir alla. Í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar má sjá að betur hefði mátt styðja við skólastjóra í grunnskólum landsins af hálfu skólaþjónustunnar eða fræðsluyfirvalda þegar innleiðing fór fram í fleiri en færri tilvikum. Mikinn mun mátti sjá milli landshluta, sem er miður, enda eigum við öll að fá sömu þjónustu sama hvar á landinu við erum. Þetta er eitt af því sem ég myndi vilja leggja áherslu á í mínum störfum sem næsti varaformaður KÍ. Við verðum að huga að öllum gerðum skóla sama hver stærð hans er eða staðsetning. Við eigum öll að búa við jafnan rétt og sömu tækifæri.

Árið 2020 voru starfandi 261 leikskóli,173 grunnskólar, 38 framhaldsskólar og 83 tónlistarskólar á landinu öllu. Í öllum þessum skólum starfa kennarar, stjórnendur og annað starfsfólk sem ein heild á faglegan og lausnamiðaðan hátt og í samstarfi við foreldra og forráðamenn barna og ungmenna ávallt með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og það er í mörg horn að líta, taka þarf mið af þörfum hvers og eins og álag getur verið mikið. Leita þarf leiða til að draga úr álagi og styðja vel við kennara í störfum þeirra. Stytting vinnuvikunnar er mögulega einn liður í því þótt ekki sé enn búið að útfæra hvernig hún verður framkvæmd. Að mínu mati er mikilvægt að kennarar fái sjálfir að koma með hugmyndir að þeirri útfærslu og ég myndi beita mér fyrir því.

Framundan eru lausir kjarasamningar, kjör kennarastéttarinnar er vel undir viðmiðum sambærilegra stétta, þessu verður að gera bót á, það er engin spurning. Við þurfum að fá fleiri faglærða kennara í skólana okkar og finna leiðir til að laða til okkar fleira fólk í þessi frábæru, gefandi og fjölbreyttu störf.

Ég vil sjá þjónandi og dreifða forystuhætti, sterka teymisvinnu, faglega liðsheild og opin samtöl við alla félagsmenn aðildarfélaga Kennarasambands Íslands.

Ég tel mig vera hæfa til þess að gegna starfi varaformanns KÍ þar sem ég hef góða reynslu og menntun sem liggur á breiðu sviði kennslufræðinnar. Ég brenn fyrir málefnum kennarastéttarinnar, full af eldmóð og áhuga.

Tölum saman á mannamáli og látum verkin tala. Styrkur okkar felst í samstöðu stéttarinnar þar sem allar raddir skipta máli.

Ég er með síðu https://styrkjumstodirnar.com/ þar sem má lesa pistla eftir mig fyrir þá sem vilja kynna sér betur mínar áherslur. Einnig má senda á mig spurningar eða vangaveltur á netfangið hjordis1970@gmail.com fyrir þá sem það vilja.

Með von um ykkar stuðning,

Hjördís

Færðu inn athugasemd