Við erum ein heild, allir kennarar!

Kæru lesarar, hér má sjá framsögu mína og lokaorð á framboðsfundi til varaformannssætis Kennarasambands Íslands sem fram fór þann 30. nóvember síðast liðinn.

Framsaga

Góða kvöldið,

Ég er hingað komin til að bjóða mig fram til varaformanns Kennarasambands Íslands. Ég trúi því að saman getum við gert svo miklu betur og meira. Ég vil leggja mitt af mörkum til starfsins okkar okkur öllum til heilla.

Ég lít á okkur sem eina heild, alla félagsmenn aðildarfélaga KÍ. Við eigum að leggja áherslu á opin og heiðarleg samtöl og samstarf þvert á skólastigin. Hlusta á raddir kennara og valdefla þá. Í stéttinni býr mikill og dýrmætur mannauður.

Ég vil leggja áherslu á gæði starfsins og fjölga leiðum til þess að meta þau. Ekki finna upp hjólið, skoða það sem aðrir eru nú þegar að gera, Ástralar t.d. Skoða m.a. stjórnunar- og kennsluhætti með aukinn árangur í huga.

En til að auka gæðin þarf að huga að ótal þáttum í starfsumhverfi kennara, þar vil ég nefna að:

  • Fjölga þarf fagmenntuðum kennurum
  • Gera starfið eftirsóknarvert og auka virðingu þess í samfélaginu
  • Fjölga stöðugildum náms- og starfsráðgjafa, ráða inn skólafélagsráðgjafa og fjölga öðrum sérfræðingum á öllum skólastigum
  • Auka þarf vægi list- og verkgreina og standa vörð um fagmenntun kennara
  • Lögbinda starfsheiti tónlista- og sérkennara
  • Auka möguleika til sí- og endurmenntunar og efla rannsóknir á svið kennslu

Einnig þarf að efla aðkomu skólaþjónustu en hún er mjög mismunandi á landinu. Við þurfum að styðja og styrkja hvert annað og huga að handleiðslumöguleikum, leggja meiri áherslu á forvarnir og eiga í góðu samstarfi við heimilin.

Það þarf að finna leiðir til að draga úr álagi í starfi, verkefnalistar kennara lengjast og þeir þurfa að hlaupa hraðar.

Ég er stolt af stétt kennara, minni fagstétt! Reynsla mín, hæfni og þekking ætti að nýtast vel í starfi varaformanns KÍ þar sem ég hef starfað á vettvangi leik- og grunnskóla og á framhaldsfræðslustiginu, bæði sem kennari, stjórnandi og náms- og starfsráðgjafi.

Ef þið treystið mér til að leiða þetta ábyrgðarmikla starf í samstarfi við ykkur öll og nýkjörinn formann sambandsins, þá heiti ég ykkur því að ég mun beita mér á faglegan og lausnamiðaðan hátt með hagsmuni okkar og nemenda í huga.

Takk fyrir!

Lokaskilaboð

Kæru félagar,

ég trúi því að það sé gott að fá inn nýtt og ferskt blóð! Við gerum þetta saman því þannig náum við árangri!

Leið mín liggur hingað, í sæti varaformanns KÍ, í gegnum 20 ára starfsreynslu. Ferill minn hefur verið farsæll, fjölbreyttur og skemmtilegur. Ég hef lengi haft áhuga á menntamálum og sá áhugi fer sífellt vaxandi, ég brenn fyrir störfum okkar kennara á mörgum ólíkum sviðum.

Fagmennska okkar þarf að vera í forgrunni og samstarf og samtal gott og náið.

Ég er traust og trú, bý yfir þrautseigju og seiglu!

Kæru félagsmenn,

ég vonast eftir ykkar atkvæði til varaformannssætis KÍ og heiti ykkur því að ég mun leggja mig alla fram fyrir okkur öll!

Ég trúi á sjálfa mig og bið ykkur hin um slíkt hið sama.

Takk fyrir frábært kvöld!

Færðu inn athugasemd