Kynning fyrir komandi varaformannskosningu KÍ

Pistill #1 birtur á vef KÍ og á öllum facebook síðum aðildarfélaga KÍ

Ég heiti Hjördís B. Gestsdóttir og starfa sem náms- og starfsráðgjafi í Langholtsskóla í Reykjavík.

Menntun mín er nokkuð víðtæk, fyrst menntaði ég mig í háriðn og lauk ég meistaraprófi í þeirri grein árið 1996. Ég lauk svo diplóma í leikskólakennarafræðum við KHÍ og fór í beinu framhaldi af því í grunnskólakennarafræðin sem lauk með B.Ed. gráðu 2006. Síðar fékk ég kennsluréttindi á framhaldsskólastigi (háriðn). Ég lauk einnig MA prófi í náms- og starfsráðgjöf fyrir rúmlega 6 árum og M.Ed. prófi í stjórnun og forysta í faglegu lærdómssamfélagi nú í haust.


Ég starfaði við háriðn á árunum 1993 – 2000, fór þá að starfa á Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi til ársins 2004. Ég færði mig þaðan yfir í grunnskólann og starfaði í Kársnesskóla í Kópavogi til ársins 2017 sem umsjónarkennari og verkefnastjóri ýmissa sérverkefna. Frá 2017 – 2019 starfaði ég sem deildarstjóri unglingadeildar í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði þar sem ég m.a. stýrði þróunarverkefni ERASMUS+ í samstarfi við skólastjóra og annað fagfólk. Á árunum 2019 – 2021 starfaði ég sem náms- og starfsráðgjafi og meðstjórnandi í Fjölsmiðjunni sem er verkþjálfunar-, framleiðslu- og fræðslusetur fyrir ungt fólk á krossgötum og á aldrinum 16 – 24 ára. Þar leiddi ég m.a. verkefni sem stuðlaði að því að Fjölsmiðjan fékk viðurkenningu Menntmálastofnunar sem formlegur framhaldsfræðsluaðili. Frá því í ágúst á þessu ári hef ég starfað sem náms- og starfsráðgjafi í Langholtsskóla í Reykjavík.


Ástæðan fyrir því að ég býð mig fram til varaformanns er í stuttu máli sú að ég hef brennandi áhuga á málaflokknum. Ég hef starfað á vettvangi kennslu í rúmlega 20 ár á þremur skólastigum ef svo má segja. Ég hef mikla trú á Kennarasambandinu og því sem það stendur fyrir og hef áhuga á að vera partur af starfinu sem þar fer fram. Ég hef áhuga á að gera starf sambandsins sýnilegra og auka samvinnu og samtal milli fagfélaganna og félagsmanna þeirra eins og kostur er. Málefni kennarastéttarinnar standa mér nærri og eru mér hjartans mál og ég vil geta haft áhrif á framþróun hennar á jákvæðan hátt.


Ef ég verð svo lánsöm að ná kjöri sem varaformaður Kennarasambands Íslands munu áherslur mínar liggja einna helst í því að bæta starfsumhverfi kennara með það fyrir sjónum að auka gæði menntunar og stuðla þannig að bættari líðan og virkara samstarfi.

Áherslurnar liggja m.a. í því að:
• Fjölga faglærðum leikskóla- og grunnskólakennurum – gera starfið eftirsóknarvert og meira aðlaðandi
• Skoða skólastarfið út frá nýjum forsendum t.d. vegna aukins nemendafjölda með annað móðurmál en íslensku
• Styrkja og efla samstarf við Sveitarfélögin/fræðsluyfirvöld/heilsugæsluna/foreldra, hvað varðar lausnir og úrræði í þyngri og flóknari málum nemenda
• Skýra og greina ólíka verkferla þannig að þeir verði skiljanlegir, markvissir og virkir
• Greiða aðgang að ráðgjöf, stuðningi, fræðslu og handleiðslu fyrir kennara og stjórnendur
• Auka vægi list- og verkgreina út frá áherslum Aðalnámskrár
• Efla forvarnir á öllum skólastigum með markvissum hætti
• Gera endurmenntun og rannsóknir á sviði kennslu og kennslufræði að mikilvægum þætti þvert á skólastigin sem eykur samvinnu þeirra á milli
• Finna leiðir til þess að draga úr álagi vegna óvissu og úrræðaleysis
• Fjölga stöðugildi náms- og starfsráðgjafa í grunn- og framhaldsskólum ásamt því
að ráða inn félagsráðgjafa
• Huga að húsnæðismálum, rými, ástandi og uppbyggingu

Eins og hér má sjá þá liggja áherslurnar í mörgum þáttum sem þó liggja saman og styðja hver við annan á einn eða annan hátt. Það þarf alltaf að skoða heildarmyndina og nauðsynlegt að byrja á grunninum og styrkja stoðirnar. Það segir sig sjálft að það getur reynst þrautinni þyngri að byggja ofan á grunn sem ekki er nægilega sterkur og fastur fyrir. Það er komið nóg af því að vera að plástra alla hluti og reyna að leysa mál með bráðabirgða reddingum hér og þar sem enda svo oftast á því að vera til frambúðar.
Kennarar og nemendur eiga ekki að þurfa að sætta sig við það að vera settir sí og æ aftast í röðina. Kennarastéttin er mikilvæg starfsstétt og mannauður hennar er ómetanlegur, því er svo mikilvægt að hlúa vel að honum og styrkja hvern og einn á faglegan og uppbyggjandi hátt.

Við megum ekki gleyma því að í skólum landsins er unnið mikilvægt og metnaðarfullt starf þar sem stefna skólanna er ávallt með hagsmuni nemenda í huga. Sníða þarf stakk eftir vexti til þess að svigrúm skapist til áframhaldandi jákvæðrar þróunar.

Þegar litið er til menntastefnu til ársins 2030 sem lögð var fram á
Alþingi í nóvember 2020 má sjá fjölbreyttar tillögur og áætlanir sem unnar voru út frá
yfirgripsmikilli undirbúningsvinnu og samráði við skólasamfélagið og aðra hagaðila.
Stoðir menntastefnunnar eru eftirfarandi:
• Jöfn tækifæri fyrir alla
• kennsla í fremstu röð
• hæfni fyrir framtíðina
• vellíðan í öndvegi
• gæði í forgrunni.
Markmið menntastefnunnar er að „veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli“. Leiðarljós stefnunnar eru: Hamingja, þekking, hugrekki og þrautsegja.
Þetta eru metnaðarfull markmið og stoðir sem hér eru settar fram, sem ég styð heilshugar, en ég set samt spurningu við hversu raunhæfar þær eru miðað við stöðuna sem er uppi í dag, þá sér í lagi í leikskólunum?

Það er kominn tími til að snúa saman bökum og setja fram skýra mynd af stöðunni eins og hún er núna. Horfa þarf fram á veginn, skoða allt það góða starf sem nú þegar fer fram í skólum landsins og draga fram
í dagsljósið það sem þarf að bæta. Það þarf að hætta að tala og skrifa um það, nú er komið að því að framkvæma. Hér vil ég láta til mín taka eins vel og mikið og mér er unnt okkur öllum, kennurum og nemendum til hagsmuna.


Við gerum þetta saman,
Hjördís B. Gestsdóttir

Færðu inn athugasemd