Kennarar sem fagstétt og fagleg skuldbinding í starfi

Pistill birtur á vef Kennarasambands Íslands í dag 10. desember 2021

Kæri félagsmaður,

hvort sem þú starfar í leik-, grunn-, framhalds- eða tónlistarskóla þá er það hlutverk mitt sem næsta kjörna varaformanns KÍ ásamt nýkjörnum formanni og öðru góðu starfsfólki Kennarasambands Íslands að gæta þinna hagsmuna á marga ólíka vegu. Allir kennarar og stjórnendur eru mínir stéttarfélagar og við erum ein heild. Vellíðan í starfi skiptir sköpum fyrir gæði náms og árangur og því ber okkur að hlúa sérstaklega að því.

Kennarastarfið er margslungið og því fylgir mikil ábyrgð. Fagleg skuldbinding býr í kennurum okkar upp til hópa og það er eitt af því sem er mikilvægt að efla enn frekar og varðveita. Þær dygðir sem nauðsynlegt er að sýna í verki m.a. til að verðskulda traust samfélagsins er trúnaður, heilindi og heiðarleiki, án þeirra verða stoðirnar veikar. Í skuldbindingunni felst einnig innri hvatning, viljinn til að efla sig í starfi og skila frá sér sem bestum árangri öllum stundum. Til þess að kennarar finni til faglegrar skuldbindingar þurfa þeir á sterkri sjálfsmynd að halda, þekkja eigin getu, styrkleika sem og veikleika. Þeir þurfa líka að finna til hvers er ætlast af þeim og hafa skýra sýn og stefnu í starfi sínu. Hér beinast spjótin að leiðtogum stéttarinnar þar sem þeim ber að stuðla að því að skapa kennurum tækifæri til þess að efla sig enn frekar í starfi á fjölbreyttan hátt, hlusta á óskir þeirra og væntingar og hjálpa til við að greiða leið þeirra.

Kraftur samstarfs á vinnustað getur verið mikill og nauðsynlegt er að kennarar átti sig á því að þeir eru ekki einir að störfum, stéttin þarf að standa saman, styrkja og styðja við hvort annað í starfi. Margt hefur breyst hvað varðar samstarf kennara frá því sem áður var, þegar þeir unnu oft einangraðir hver í sinni kennslustofu með sinn nemendahóp. Nú á dögum er talað um hina nýju fagmennsku en í henni felst mikil samvinna og miðlun þekkingar og felur hún einnig í sér að kennarar verði opnari fyrir áhrifum. Traust og heiðarleiki eru hugtök sem skipta gríðarlega miklu máli í störfum stéttarinnar, hverjum og einum ber skylda til að vanda sig í öllum samskiptum og samvinnu og grafa ekki undan heiðri eða mannorði samstarfsmanna sinna. Samstarf, samtal og samvirkni er það sem ég vil sjá enn meira af í störfum okkar, á vettvangi og milli skólastiga og skólagerða, fyrir því vil ég beita mér.

Þegar kennarastarfið og skuldbinding þess er ígrundað má sjá að í því felast margar breytur. Sá sem velur sér að mennta sig til kennara og fer svo að starfa sem slíkur þarf að vera gæddur mörgum og fjölbreyttum kostum og hæfileikum. Störf kennara krefjast mikils af honum og á síðustu misserum hefur starfið orðið æ flóknara og kröfuharðara. Ef skuldbinding við starfið á að vera öflug og sterk þarf að huga vel að allri umgjörð þess. Faglega skuldbundnir kennarar leitast við að þróa og þroska sig í starfi, eru tilbúnari til þátttöku starfsþróunar og leitast eftir samstarfi og samvinnu við samkennara og aðra hagsmunaaðila. Megintilgangur kennarastarfsins er ávallt sá að bæta árangur nemandans með öllum tiltækum leiðum sem í boði eru innan siðferðilegra marka. Við störfum undir formerkjum faglegs lærdómssamfélags og menntunar fyrir alla og okkur ber að finna leiðir í sameiningu til þess að geta staðið stolt undir því sem ein heild. Menntastefna til ársins 2030 hefur verið lögð fram og nú reynir á að innleiðing hennar fari fram með faglegum hætti í samvinnu og sátt við okkur öll. Hér skiptir máli að sameinast um það verkefni og vanda til verka svo okkur takist vel til. Stuðningur forystunnar þarf að vera til staðar og sameiginlegur skilningur og sýn okkar allra á áherslur stefnunnar í heild.

Ég er fyrst og fremst kennari og það sem að ofan er ritað á við um mig sjálfa líkt og ykkur hin burt séð frá því hvort ég starfi eins og er sem kennari, náms- og starfsráðgjafi, stjórnandi eða sem tilvonandi varaformaður Kennarasambands Íslands.

Eins og áður hefur komið fram í mínum skrifum þá er ég afar stolt af minni fagstétt og ég tel hana gera kraftaverk alla daga. Mannauðurinn er mikill og dýrmætur og nauðsynlegt að við hlúum vel að öllum og sköpum gott og öruggt starfsumhverfi. Ánægja og vellíðan starfsmanna skilar sér í bættari skólabrag heilt yfir og hefur það bein áhrif á vellíðan og árangur nemenda, þetta hafa niðurstöður ýmissa rannsókna stutt við.

Varaformaður KÍ starfar í nánu samstarfi við formann félagsins þar sem þeir leiða saman hesta sína í öflugu samstarfi við aðildarfélögin átta. Ég tel að með faglegum og sveigjanlegum stjórnunarháttum, heiðarlegu og opnu samtali ásamt lausnamiðuðum nálgunum og valdeflingu kennara náum við árangri í sameiningu.

Ég tel mig hafa það sem þarf til fyrir embætti varaformanns KÍ þar sem ég mun leiða þessa öflugu fylkingu við hlið nýkjörins formanns hennar. Ef ég verð fyrir valinu og mér treyst fyrir þessu stóra og mikilvæga verkefni mun ég leggja mitt af mörkum við að vinna ötullega að hagsmunum félagsmanna aðildarfélaganna allra í góðu og öflugu samstarfi. Ég efast ekki um að metnaður minn og virkni í starfi muni nýtast og hjálpa mér að vera ykkur öllum, kæru félagsmenn aðildarfélaga Kennarasambands Íslands, góður og kröftugur stuðningur.

Virðingarfyllst,

Hjördís B. Gestsdóttir

Ég vil verða næsti varaformaður Kennarsambands Íslands

Pistill birtur á vef KÍ mánudaginn 6. desember 2021

Í dag er komið að því að kennarar geri upp hug sinn um hver skuli vera næsti varaformaður Kennarasambands Íslands.

Valið stendur á milli mín, Hjördísar B. Gestsdóttur og sjö annarra frambærilegra frambjóðenda sem allir hafa brennandi áhuga á menntamálum og vilja leggja sitt af mörkum við að leiða fagstétt kennara í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistaskólum landsins. Ég leitast eftir ykkar stuðningi í kosningum til varaformanns KÍ sem fram fara dagana 6. – 13. desember og vil ég hvetja alla til að nýta kosningarétt sinn.

Starfsferill minn hófst um aldamótin þegar ég fyrst hóf störf með börnum í leikskóla. Áður hafði ég, sem ung stúlka, mikið verið að passa börn og réð mig í vist á sumrin til að líta eftir litlum krílum. Í upphafi stóð ekki til að staldra lengi við á þeim vettvangi, en núna tæplega 22 árum síðar starfa ég enn með börnum og ungmennum. Ég hef brennandi áhuga á öllu sem snýr að menntamálum og hef jafnt og þétt bætt við mig þekkingu. Stundaði fyrst nám í leikskóla- og grunnskólakennarafræðum, bætti við mig námi í náms- og starfsráðgjöf og lauk nýlega námi í stjórnun og forystu í faglegu lærdómssamfélagi. Ég hef í gegnum störf mín á fjölbreyttum vettvangi átt farsælt samstarf við ólíka einstaklinga og fagfólk á breiðu sviði kennslufræðinnar og tekið þátt í fjölmörgum stærri sem smærri verkefnum tengdum skólaþróun og félagsstörfum, sem kennari, stjórnandi og náms- og starfsráðgjafi. Reynsla mín við nám og störf undanfarin ár hefur leitt mig að þeirri niðurstöðu að ég gæti látið gott af mér leiða sem ein af forystumönnum Kennarasambands Íslands og því leita ég eftir ykkar stuðningi.

Undanfarna daga og vikur hef ég átt spjall við kennara og aðra sérfræðinga sem starfa í skólum landsins um málefni sem brenna helst á þeim þegar litið er til menntamála. Það hefur verið gefandi og áhugavert að hlusta á það sem fram hefur komið í þessum samtölum þar sem kennarar hafa ekki legið á skoðunum sínum. Öll málefnin eru jafn mikilvæg og góð viðbót við umræðuna sem fyrir er.

Varaformaður Kennarasambands Íslands starfar í nánu samstarfi við formann KÍ og leiðir ásamt honum breiðfylkingu kennara í aðildarfélögum Kennarasambandsins. Varaformaður er faglegur leiðtogi sem leitast við að skapa sameiginlega sýn allra félagsmanna og lítur á hópinn sem eina liðsheild. Með valdeflingu kennara, virkri hlustun, nútímalegum nálgunum, opnum og heiðarlegum samskiptum náum við í sameiningu að efla okkar stétt og ná enn meiri árangri.

Hljóti ég ykkar stuðning mun ég leggja áherslu á að bæta starfsumhverfi kennara með fjölbreytileika okkar í huga. Kennarar eru fagmenntaðir sérfræðingar, þeir þróa sig áfram í starfi alla daga í takt við þróun samfélagsins. Það er m.a. hlutverk forystu Kennarasambands Íslands að vinna að því að skapa kennurum meiri sveigjanleika og tækifæri til þess að geta sinnt þeirri þróun á faglegan hátt. Áherslur skólastarfsins hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár meðal annars með aukinni tækni og nýju námsmati. Nú horfum við til menntastefnu á Íslandi til ársins 2030 og mikilvægt er að innleiðing hennar gangi farsællega fyrir sig. Til að svo verði þurfum við að sameinast um fagleg vinnubrögð með gæði menntunar og árangur í huga. Þar eru kennarar, með stuðningi forystunnar, í lykil hlutverki.

Allir skólar eru lærdómssamfélag og starfa undir hugmyndafræðinni um menntun fyrir alla. Í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar má sjá að betur hefði mátt styðja við skólastjóra í grunnskólum landsins af hálfu skólaþjónustunnar eða fræðsluyfirvalda þegar innleiðing fór fram í fleiri en færri tilvikum. Mikinn mun mátti sjá milli landshluta, sem er miður, enda eigum við öll að fá sömu þjónustu sama hvar á landinu við erum. Þetta er eitt af því sem ég myndi vilja leggja áherslu á í mínum störfum sem næsti varaformaður KÍ. Við verðum að huga að öllum gerðum skóla sama hver stærð hans er eða staðsetning. Við eigum öll að búa við jafnan rétt og sömu tækifæri.

Árið 2020 voru starfandi 261 leikskóli,173 grunnskólar, 38 framhaldsskólar og 83 tónlistarskólar á landinu öllu. Í öllum þessum skólum starfa kennarar, stjórnendur og annað starfsfólk sem ein heild á faglegan og lausnamiðaðan hátt og í samstarfi við foreldra og forráðamenn barna og ungmenna ávallt með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og það er í mörg horn að líta, taka þarf mið af þörfum hvers og eins og álag getur verið mikið. Leita þarf leiða til að draga úr álagi og styðja vel við kennara í störfum þeirra. Stytting vinnuvikunnar er mögulega einn liður í því þótt ekki sé enn búið að útfæra hvernig hún verður framkvæmd. Að mínu mati er mikilvægt að kennarar fái sjálfir að koma með hugmyndir að þeirri útfærslu og ég myndi beita mér fyrir því.

Framundan eru lausir kjarasamningar, kjör kennarastéttarinnar er vel undir viðmiðum sambærilegra stétta, þessu verður að gera bót á, það er engin spurning. Við þurfum að fá fleiri faglærða kennara í skólana okkar og finna leiðir til að laða til okkar fleira fólk í þessi frábæru, gefandi og fjölbreyttu störf.

Ég vil sjá þjónandi og dreifða forystuhætti, sterka teymisvinnu, faglega liðsheild og opin samtöl við alla félagsmenn aðildarfélaga Kennarasambands Íslands.

Ég tel mig vera hæfa til þess að gegna starfi varaformanns KÍ þar sem ég hef góða reynslu og menntun sem liggur á breiðu sviði kennslufræðinnar. Ég brenn fyrir málefnum kennarastéttarinnar, full af eldmóð og áhuga.

Tölum saman á mannamáli og látum verkin tala. Styrkur okkar felst í samstöðu stéttarinnar þar sem allar raddir skipta máli.

Ég er með síðu https://styrkjumstodirnar.com/ þar sem má lesa pistla eftir mig fyrir þá sem vilja kynna sér betur mínar áherslur. Einnig má senda á mig spurningar eða vangaveltur á netfangið hjordis1970@gmail.com fyrir þá sem það vilja.

Með von um ykkar stuðning,

Hjördís

Erindi til stéttarfélagsmanna Kennarsambands Íslands

Grein birt á netmiðlinum visir.is laugardaginn 5. desember 2021

Kæri stéttarfélagi,

Menntun skiptir máli fyrir okkur öll og mikilvægt er að vanda valið þegar kemur að því að kjósa þá sem gefa kost á sér sem leiðtogar menntamála. Einstaklinga sem brenna fyrir málefnum menntunar, eru fylgnir sér, búa yfir þrautseigju og seiglu, hlusta á raddir kennara og valdefla þá.

Ég hef boðið mig fram til varaformanns Kennarasambands Íslands þar sem ég hef trú á sjálfri mér í það starf. Lengi vel hef ég haft brennandi áhuga á menntamálum og tel mig hafa það sem til þarf til að leiða okkar fagstétt ásamt nýkjörnum formanni. Störf með börnum og ungmennum er gefandi og krefjandi í senn en eitt það mikilvægasta sem til er um leið.

Mannauður fagstéttarinnar er mikill, fjölbreyttur og dýrmætur. Huga þarf að starfsumhverfi og gæðum starfsins og hlúa þarf að okkar fólki, styðja það og styrkja. Ánægja í starfi okkar kennara skilar sér í jákvæðari skólabrag og meiri árangri nemenda.

Kennarar þurfa sterkari rödd og þar get ég lagt mitt af mörkum með virkri hlustun um þau málefni sem kennarar brenna fyrir. Samstarf og samtal allra skólastiga og skólagerða er það sem þarf að vera virkt öllum stundum ásamt sveigjanleika og auknum tækifærum m.a. til sí- og endurmenntunar og frekari starfs- og framþróunar.

Kæri stéttarfélagi, ég óska eftir þínu atkvæði í sæti varaformanns Kennarasambands Íslands. Ég heiti þér því að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur og vinna ötullega að málefnum stéttarinnar með hagsmuni hvers og eins í huga, vera talsmaður okkar allra, enda lít ég svo á að við séum ein heild.

                  ____________________________________________________

Saman getum við gert svo miklu betur og meira! Látum verkin tala!

Hlýjar kveðjur,

Hjördís

Við erum ein heild, allir kennarar!

Kæru lesarar, hér má sjá framsögu mína og lokaorð á framboðsfundi til varaformannssætis Kennarasambands Íslands sem fram fór þann 30. nóvember síðast liðinn.

Framsaga

Góða kvöldið,

Ég er hingað komin til að bjóða mig fram til varaformanns Kennarasambands Íslands. Ég trúi því að saman getum við gert svo miklu betur og meira. Ég vil leggja mitt af mörkum til starfsins okkar okkur öllum til heilla.

Ég lít á okkur sem eina heild, alla félagsmenn aðildarfélaga KÍ. Við eigum að leggja áherslu á opin og heiðarleg samtöl og samstarf þvert á skólastigin. Hlusta á raddir kennara og valdefla þá. Í stéttinni býr mikill og dýrmætur mannauður.

Ég vil leggja áherslu á gæði starfsins og fjölga leiðum til þess að meta þau. Ekki finna upp hjólið, skoða það sem aðrir eru nú þegar að gera, Ástralar t.d. Skoða m.a. stjórnunar- og kennsluhætti með aukinn árangur í huga.

En til að auka gæðin þarf að huga að ótal þáttum í starfsumhverfi kennara, þar vil ég nefna að:

  • Fjölga þarf fagmenntuðum kennurum
  • Gera starfið eftirsóknarvert og auka virðingu þess í samfélaginu
  • Fjölga stöðugildum náms- og starfsráðgjafa, ráða inn skólafélagsráðgjafa og fjölga öðrum sérfræðingum á öllum skólastigum
  • Auka þarf vægi list- og verkgreina og standa vörð um fagmenntun kennara
  • Lögbinda starfsheiti tónlista- og sérkennara
  • Auka möguleika til sí- og endurmenntunar og efla rannsóknir á svið kennslu

Einnig þarf að efla aðkomu skólaþjónustu en hún er mjög mismunandi á landinu. Við þurfum að styðja og styrkja hvert annað og huga að handleiðslumöguleikum, leggja meiri áherslu á forvarnir og eiga í góðu samstarfi við heimilin.

Það þarf að finna leiðir til að draga úr álagi í starfi, verkefnalistar kennara lengjast og þeir þurfa að hlaupa hraðar.

Ég er stolt af stétt kennara, minni fagstétt! Reynsla mín, hæfni og þekking ætti að nýtast vel í starfi varaformanns KÍ þar sem ég hef starfað á vettvangi leik- og grunnskóla og á framhaldsfræðslustiginu, bæði sem kennari, stjórnandi og náms- og starfsráðgjafi.

Ef þið treystið mér til að leiða þetta ábyrgðarmikla starf í samstarfi við ykkur öll og nýkjörinn formann sambandsins, þá heiti ég ykkur því að ég mun beita mér á faglegan og lausnamiðaðan hátt með hagsmuni okkar og nemenda í huga.

Takk fyrir!

Lokaskilaboð

Kæru félagar,

ég trúi því að það sé gott að fá inn nýtt og ferskt blóð! Við gerum þetta saman því þannig náum við árangri!

Leið mín liggur hingað, í sæti varaformanns KÍ, í gegnum 20 ára starfsreynslu. Ferill minn hefur verið farsæll, fjölbreyttur og skemmtilegur. Ég hef lengi haft áhuga á menntamálum og sá áhugi fer sífellt vaxandi, ég brenn fyrir störfum okkar kennara á mörgum ólíkum sviðum.

Fagmennska okkar þarf að vera í forgrunni og samstarf og samtal gott og náið.

Ég er traust og trú, bý yfir þrautseigju og seiglu!

Kæru félagsmenn,

ég vonast eftir ykkar atkvæði til varaformannssætis KÍ og heiti ykkur því að ég mun leggja mig alla fram fyrir okkur öll!

Ég trúi á sjálfa mig og bið ykkur hin um slíkt hið sama.

Takk fyrir frábært kvöld!

Kynning fyrir komandi varaformannskosningu KÍ

Pistill #1 birtur á vef KÍ og á öllum facebook síðum aðildarfélaga KÍ

Ég heiti Hjördís B. Gestsdóttir og starfa sem náms- og starfsráðgjafi í Langholtsskóla í Reykjavík.

Menntun mín er nokkuð víðtæk, fyrst menntaði ég mig í háriðn og lauk ég meistaraprófi í þeirri grein árið 1996. Ég lauk svo diplóma í leikskólakennarafræðum við KHÍ og fór í beinu framhaldi af því í grunnskólakennarafræðin sem lauk með B.Ed. gráðu 2006. Síðar fékk ég kennsluréttindi á framhaldsskólastigi (háriðn). Ég lauk einnig MA prófi í náms- og starfsráðgjöf fyrir rúmlega 6 árum og M.Ed. prófi í stjórnun og forysta í faglegu lærdómssamfélagi nú í haust.


Ég starfaði við háriðn á árunum 1993 – 2000, fór þá að starfa á Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi til ársins 2004. Ég færði mig þaðan yfir í grunnskólann og starfaði í Kársnesskóla í Kópavogi til ársins 2017 sem umsjónarkennari og verkefnastjóri ýmissa sérverkefna. Frá 2017 – 2019 starfaði ég sem deildarstjóri unglingadeildar í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði þar sem ég m.a. stýrði þróunarverkefni ERASMUS+ í samstarfi við skólastjóra og annað fagfólk. Á árunum 2019 – 2021 starfaði ég sem náms- og starfsráðgjafi og meðstjórnandi í Fjölsmiðjunni sem er verkþjálfunar-, framleiðslu- og fræðslusetur fyrir ungt fólk á krossgötum og á aldrinum 16 – 24 ára. Þar leiddi ég m.a. verkefni sem stuðlaði að því að Fjölsmiðjan fékk viðurkenningu Menntmálastofnunar sem formlegur framhaldsfræðsluaðili. Frá því í ágúst á þessu ári hef ég starfað sem náms- og starfsráðgjafi í Langholtsskóla í Reykjavík.


Ástæðan fyrir því að ég býð mig fram til varaformanns er í stuttu máli sú að ég hef brennandi áhuga á málaflokknum. Ég hef starfað á vettvangi kennslu í rúmlega 20 ár á þremur skólastigum ef svo má segja. Ég hef mikla trú á Kennarasambandinu og því sem það stendur fyrir og hef áhuga á að vera partur af starfinu sem þar fer fram. Ég hef áhuga á að gera starf sambandsins sýnilegra og auka samvinnu og samtal milli fagfélaganna og félagsmanna þeirra eins og kostur er. Málefni kennarastéttarinnar standa mér nærri og eru mér hjartans mál og ég vil geta haft áhrif á framþróun hennar á jákvæðan hátt.


Ef ég verð svo lánsöm að ná kjöri sem varaformaður Kennarasambands Íslands munu áherslur mínar liggja einna helst í því að bæta starfsumhverfi kennara með það fyrir sjónum að auka gæði menntunar og stuðla þannig að bættari líðan og virkara samstarfi.

Áherslurnar liggja m.a. í því að:
• Fjölga faglærðum leikskóla- og grunnskólakennurum – gera starfið eftirsóknarvert og meira aðlaðandi
• Skoða skólastarfið út frá nýjum forsendum t.d. vegna aukins nemendafjölda með annað móðurmál en íslensku
• Styrkja og efla samstarf við Sveitarfélögin/fræðsluyfirvöld/heilsugæsluna/foreldra, hvað varðar lausnir og úrræði í þyngri og flóknari málum nemenda
• Skýra og greina ólíka verkferla þannig að þeir verði skiljanlegir, markvissir og virkir
• Greiða aðgang að ráðgjöf, stuðningi, fræðslu og handleiðslu fyrir kennara og stjórnendur
• Auka vægi list- og verkgreina út frá áherslum Aðalnámskrár
• Efla forvarnir á öllum skólastigum með markvissum hætti
• Gera endurmenntun og rannsóknir á sviði kennslu og kennslufræði að mikilvægum þætti þvert á skólastigin sem eykur samvinnu þeirra á milli
• Finna leiðir til þess að draga úr álagi vegna óvissu og úrræðaleysis
• Fjölga stöðugildi náms- og starfsráðgjafa í grunn- og framhaldsskólum ásamt því
að ráða inn félagsráðgjafa
• Huga að húsnæðismálum, rými, ástandi og uppbyggingu

Eins og hér má sjá þá liggja áherslurnar í mörgum þáttum sem þó liggja saman og styðja hver við annan á einn eða annan hátt. Það þarf alltaf að skoða heildarmyndina og nauðsynlegt að byrja á grunninum og styrkja stoðirnar. Það segir sig sjálft að það getur reynst þrautinni þyngri að byggja ofan á grunn sem ekki er nægilega sterkur og fastur fyrir. Það er komið nóg af því að vera að plástra alla hluti og reyna að leysa mál með bráðabirgða reddingum hér og þar sem enda svo oftast á því að vera til frambúðar.
Kennarar og nemendur eiga ekki að þurfa að sætta sig við það að vera settir sí og æ aftast í röðina. Kennarastéttin er mikilvæg starfsstétt og mannauður hennar er ómetanlegur, því er svo mikilvægt að hlúa vel að honum og styrkja hvern og einn á faglegan og uppbyggjandi hátt.

Við megum ekki gleyma því að í skólum landsins er unnið mikilvægt og metnaðarfullt starf þar sem stefna skólanna er ávallt með hagsmuni nemenda í huga. Sníða þarf stakk eftir vexti til þess að svigrúm skapist til áframhaldandi jákvæðrar þróunar.

Þegar litið er til menntastefnu til ársins 2030 sem lögð var fram á
Alþingi í nóvember 2020 má sjá fjölbreyttar tillögur og áætlanir sem unnar voru út frá
yfirgripsmikilli undirbúningsvinnu og samráði við skólasamfélagið og aðra hagaðila.
Stoðir menntastefnunnar eru eftirfarandi:
• Jöfn tækifæri fyrir alla
• kennsla í fremstu röð
• hæfni fyrir framtíðina
• vellíðan í öndvegi
• gæði í forgrunni.
Markmið menntastefnunnar er að „veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli“. Leiðarljós stefnunnar eru: Hamingja, þekking, hugrekki og þrautsegja.
Þetta eru metnaðarfull markmið og stoðir sem hér eru settar fram, sem ég styð heilshugar, en ég set samt spurningu við hversu raunhæfar þær eru miðað við stöðuna sem er uppi í dag, þá sér í lagi í leikskólunum?

Það er kominn tími til að snúa saman bökum og setja fram skýra mynd af stöðunni eins og hún er núna. Horfa þarf fram á veginn, skoða allt það góða starf sem nú þegar fer fram í skólum landsins og draga fram
í dagsljósið það sem þarf að bæta. Það þarf að hætta að tala og skrifa um það, nú er komið að því að framkvæma. Hér vil ég láta til mín taka eins vel og mikið og mér er unnt okkur öllum, kennurum og nemendum til hagsmuna.


Við gerum þetta saman,
Hjördís B. Gestsdóttir

Gerum þetta saman

Pistill birtur í Morgunblaðinu laugardaginn 20. nóvember 2021

Undanfarin misseri hef ég velt því fyrir mér að bjóða mig fram til varaformanns Kennarasamband Íslands, sem að ég svo gerði þann 16. nóvember, að vel athuguðu máli.

Frá aldamótum síðustu hef ég starfað á vettvangi leikskóla, grunnskóla og við virkniúrræði ungmenna á aldrinum 16 – 24 ára sem ekki hafa fundið sig í hinu almenna og hefðbundna menntakerfi framhaldsskólans.

Ég hef átt í góðu samstarfi við stjórnendur og aðra fagaðila meðal annars innan framhaldsskólanna, Menntamálastofnunar og Vinnumálastofnunar.

Á þeim rúmum 20 árum sem ég hef starfað á vettvangi kennslu, fyrst sem leiðbeinandi, svo sem kennari, stjórnandi og náms- og starfsráðgjafi hafa verkefnin verið afar fjölbreytt og lærdómsrík. Segja má að þau hafi mótað mig og hugsjónir mínar að miklu leyti en á sama tíma hefur þekking mín, hæfni og reynsla aukist.

Ég er afar stolt af minni fagstétt og tel hana gera kraftaverk á hverjum degi. Í skólum landsins, á öllum skólastigum, fer fram mikilvægt starf þar sem mannauður er mikill og dýrmætur. Það er því nauðsynlegt að hlúa að þeim og skapa þeim gott og öruggt starfsumhverfi. Ánægja starfsmanna skilar sér til betri starfsanda og vinnubragða sem skila sér beint til nemenda og hefur áhrif á gæði kennslunnar og árangur nemenda verður meiri. Samstarf aðila innan skólans sem utan er einn þeirra þátta sem skiptir hvað mestu máli. Við þurfum og eigum að hlusta á raddir kennaranna, vinna saman að settum markmiðum, skapa sameiginlega sýn og ávallt að hafa hagsmuni nemendanna að leiðarljósi. Ég hef alla tíð talað fyrir þessum hugsjónum mínum við mitt samstarfsfólk.

Lengi má gott bæta! Við eigum það því miður of mikið til að ræða meira um það sem miður hefur farið en það sem gott hefur verið gert. Það er mín skoðun að við ættum að láta það heyrast betur þegar vel gengur. Við ættum að huga betur að gæðum starfsins með fjölbreyttari leiðum en nú þegar er gert, bæði hvað varðar kennsluhætti, stjórnun og samstarf með árangur nemenda okkar í huga.

Varaformaður KÍ starfar í nánu samstarfi við formann félagsins þar sem þeir leiða saman hesta sína í öflugu samstarfi við aðildarfélögin átta. Ég tel að með faglegum og sveigjanlegum stjórnunarháttum, heiðarlegu og opnu samtali ásamt lausnamiðuðum nálgunum og valdeflingu kennara náum við árangri í sameiningu.

Ég tel mig hafa það sem þarf til fyrir embætti varaformanns KÍ þar sem ég mun leiða þessa öflugu fylkingu við hlið nýkjörins formanns hennar. Ef ég verð fyrir valinu og mér treyst fyrir þessu stóra og mikilvæga verkefni mun ég leggja mitt af mörkum við að vinna ötullega að hagsmunum félagsmanna aðildarfélaganna allra í góðu og öflugu samstarfi.

Virðingarfyllst

Hjördís B. Gestsdóttir