„Hormónaveiran“ og uppeldi

Unga fólkið og hormónar, hverjum datt í hug að blanda þessu tvennu saman á þessu æviskeiði mannsins? Jemundur minn!

Það er nú aldeilis ekki í hendi hvers sem er að höndla þetta tímabil, hvorki ungmennið sjálft né uppalendur eru með próf í þessum „veirum“ sem synda stjórnlaust um líkamann með tilheyrandi áhrifum. Hver elskar ekki að ræða lífsins gagn og nauðsynjar við unglinginn sinn fullur vonar um að ekkert ami að hlustuninni hjá honum en þrátt fyrir afar vel valin orð og líkingamál auk æfingar á leiðsögninni, eru einu viðbrögðin í formi hljóðs eins og „umhm“!

Ég verð nú að segja að ég tek hattinn ofan fyrir okkur uppalendum ungmenna, sérstaklega á þessu skeiði í lífi þeirra, að tapa hreinlega ekki glórunni af áreynslu og metnaði fyrir bjartri framtíð þessara yndisvera.

Í árferði sem þessu, sem við öll upplifum svo sterkt, hver á sinn hátt, reynir heldur betur á marga og þá ekki síst ungmennin okkar sem all flest hlökkuðu mikið til að hefja nám í framhaldsskólum landsins, og öðrum, með von um að kynnast haug af öðru ungu og skemmtilegu fólki og gera fullt til að safna jákvæðum minningum.

En nei, það er ekki raunin, byrjaði jú ágætlega en svo kom Covid í þriðju bylgju og allt bakkaði heim í herbergi, í tölvuna, í símann og þau urðu bara að bjarga sér og halda haus. Hvað gerist þá? Jú, stór áhrifavaldur er „hormónaveiran“ góða sem syndir um og stýrir aðeins stefnunni, meira hjá sumum en öðrum eins og gengur. Hún er ekki auðveld viðureignar og getur haft mikil áhrif á orkuna og áhugann til að mynda, kannski ekki ólíkt mörgum öðrum veirum. Það getur reynst þrautinni þyngri að uppræta hana fljótt og vel þar sem hún er eiginlega ódrepandi í einhver ár blessunin en með góðu móti er þó mögulegt að temja hana lítillega.

Þetta allt kostar mikla orku, tíma, þolinmæði, jákvæðni, seiglu, þrautseigu og bjartsýni sem auðvitað allir uppalendur hafa nóg af, enda ekkert annað að gera yfir daginn, eða hvað?

Við skulum öll vona að sem flestir komist í gegnum þetta með sem fæstum hindrunum og nái sínu striki með hjálp frá hvort öðru. Semjum frið við þessa blessuðu „hormónaveiru“ í þeim tilgangi helst að halda geðheilsunni ef ekki værir fyrir annað.

Gangi okkur öllum vel að finna jafnvægi, gleði og hamingju.

Góðar stundir,

Hjördís