Hver er lausnin?
Það er alveg ljóst að alltaf má gera betur því lengi má gott bæta eins og sagt er einhver staðar!
En í hversu góðum málum erum við þegar litið er til mennta- og velferðarkerfisins okkar hér á Íslandi?
Ég er á þeirri skoðun að til þess að sporna við eða í það minnsta til að draga úr fjölþættum vanda barna í skólum landsins, þurfi mikið að koma til viðbótar til styrkingar á því kerfi. Það ætti að leggja miklu meira til málefna menntunar strax á fyrsta stigi menntunar barna, sem er leikskólinn. Í leikskólanum fer fram afar mikilvægt og faglegt starf sér menntaðra starfsmanna. Auk þeirra eru aðrir starfsmenn, oft ekki sér menntaðir á sviðinu, sem eru ekki síður mikilvægir til þess hreinlega að geta haldið leikskólunum opnum svo hægt sé að veita þessa flottu þjónustu.
Strax á þessu fyrsta skólastigi reka starfsmenn augun í ýmislegt sem betur þarf að skoða hjá einstaka barni eða í tengslum við persónulega umgjörð þess. Það klingja einhverjar viðvörunarbjöllur og oftar en ekki að ástæðulausu. Hvað tekur þá við? Jú, því miður of oft bið, endalaus bið, bið eftir því að barnið nái meiri þroska, aðeins að sjá til hvort þetta eða hitt gerist ekki, foreldrarnir áttu kannski bara slæman dag o.s.frv. Þetta fær svo að ganga svona í einhvern tíma óáreitt, ekkert gert, ekkert kannað, ekkert ferli, bara bið!
Hér þarf inngrip eða eins og það kallast í dag á afar fallegu faglegu máli, „snemmtæka íhlutun“!
Hlustum á fagfólkið og skoðum málin með opnum huga, strax, ekki bíða og sjá til! Við berum ábyrgð saman á velferð barnanna sem við erum að sinna í okkar dagsdaglegu störfum.
Fyrir mér er og hefur alltaf verið kýrskýrt hvar vandinn liggur og það er í tengslum við það fjármagn sem sett er inn í mennta- og velferðarkerfið okkar ásamt réttri sýn. Við þurfum að auka við stöðugildin og setja meira undir stoðirnar strax frá upphafi. Það þarf að þjónusta börnin og fjölskyldur þeirra af sterkum hætti og leiðbeina á faglegan hátt með árangur þeirra í huga til seinni tíma litið. Í þessu ferli fellst sparnaður sem ekki verður í tölum talið og fækkun „vandamála“ sem upp koma síðar á lífsleiðinni verður veruleg.
Það má ekki loka augunum fyrir þessu og leyfa málunum að velkjast um í kerfinu, bíða og sjá, það gerir ekkert gagn!
Ef ekkert er að gert eða lítið og seint gripið inn í þá þurfum við á fjölbreyttum úrræðum að halda fyrir ungt fólk sem ekki hefur náð að fóta sig í skóla né vinnu. Þessum hópi fólks þarf að sinna vel eins og öðrum en með „snemmtækri íhlutun“ og styrkari stoðum kerfisins frá fyrsta skólastigi getum við fækkað verulega í þeim hópi markvisst!
Góðar stundir,
Hjördís