Einelti – félagslegir erfiðleikar

Er eitthvað sameiginlegt með félagslegum erfiðleikum og einelti?

Þau börn sem eiga við félagslega erfiðleika að stríða eru oft þau sömu og upplifað hafa eða orðið hafa fyrir einelti. Einelti er stundum ofnotað orð og krakkar nota það í fullmiklum mæli á rangan hátt. Flestir skólar landsins kynna nemendum vel fyrir þessu hugtaki og útskýra við hvað er átt þegar um einelti er að ræða. Í sumum skólum eru jafnvel fallegar veggmyndir sem útskýra vel þetta hugtak.

Skilgreining eineltis: Einelti er endurtekið, andlegt eða líkamlegt ofbeldi og/eða félagsleg útskúfun sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann. Einelti á sér stað á milli tveggja einstaklinga eða einstaklings og hóps.

Einelti getur birst í mörgum myndum, það getur verið:

  • Munnlegt, t.d. uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni.
  • Líkamlegt, t.d. barsmíðar, spörk og hrindingar.
  • Efnislegt, t.d. eigum barns stolið eða þær eyðilagðar.
  • Skriflegt, t.d. niðrandi tölvuskeyti, sms-skilaboð, krot og bréfasendingar.
  • Andlegt, t.d. þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem gengur gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.
  • Óbeint. t.d. baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahóp.

Nánari upplýsingar er t.d. að finna á eftirfarandi vef: http://doktor.is/grein/einelti-rad-til-foreldra

Barn eða einstaklingur sem upplifað hefur sig útundan í hópnum til langs tíma fer að dæma sig hart sjálfur og fer að trúa því að hann sé ómögulegur, ljótur, leiðinlegur, að hann kunni eða geti aldrei gert neitt rétt o.fl. o.fl. Einstaklingurinn myndar með sér brotna og ranga sjálfsmynd því hann er mikið einn og kann ekki að finna sér leið inn í hópinn aftur nema mögulega með rangri hegðun eins og að leika „trúðinn“.

Það vill oft brenna við að einstaklingurinn sem verður fyrir einelti er tekinn út úr hópnum og rætt við hann af fullorðnu fólki. Náms- og starfsráðgjafinn ræðir við hann um líðan hans, skólasálfræðingurinn ræðir við hann um líðan hans, deildar- og/eða skólastjóri ræðir við hann um líðan o.s.frv. Jú það er alveg líka rætt við gerendur, oft af sömu aðilum, en einhvern vegin fer ekki nein markviss vinna fram sem skilað getur jákvæðum árangri í raun. Hvað er til ráða? Hvernig er best að vinna með þetta? Hver á að gera hvað? Hvað geta heimilin gert? Hvað getur skólinn gert? Hvað geta börnin sjálf gert? Það þarf að kryfja málið, finna upphafið, ræða saman á jafnréttisgrundvelli. Ekki stöðugt benda og segja: „hann sagði“, „hún sagði“ o.s.frv. Jafnaldrarnir sem eiga í hlut hverju sinni þegar svona mál koma upp verða að vera settir í vinnu til að leysa vandann ekki senda þolandann, eins og oftast er gert, í stöðug viðtöl/samtöl við fullorðna sem voru ekki einu sinni með í þessum aðstæðum.

Svarið við spurningunni minni hér að ofan er því „“ það er ýmislegt sameiginlegt með einelti og félagslegum erfðiðleikum. Sá sem á við félagslega erfiðleika að stríða almennt, getur verið auðvelt skotmark eineltis þ.e. er spottaður út úr hópnum og hann tekinn fyrir. Hins vegar sá sem verður fyrir einelti getur þróað með sér að eiga við félagslega erfiðleika að stríða vegna eineltisins, hann hættir að treysta og kann ekki lengur að vera hann sjálfur og þorir því heldur ekki vegna fyrri reynslu af einelti.

Þetta er flókið og erfitt og oft illleysanlegt en allt er þó hægt með jákvæðum samskiptum milli manna þar sem allir stefna að sömu niðurstöðu = UPPRÆTINGU, SÁTT OG VELLÍÐAN ALLRA INNAN SEM UTAN.