Réttindi barna

Nú langar mig aðeins til að beina sjónum mínum að réttindum barna. Gott er að hafa til hliðsjónar hvað fram kemur í Barnasáttmálanum okkar góða sem lögfestur var hér á landi þann 20. febrúar árið 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf.

Í flokknum umönnun segir: Barnasáttmálinn leggur þær skyldur á aðildaríkin að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála.

Ég verð því miður að segja að mér finnst ekki öllum börnunum okkar sinnt jafnvel innan skólakerfisins. Þau börn sem eiga undir högg að sækja eru þau sem hafa fengið greiningar af ýmsu tagi og þau börn sem eru á mörkum þess að falla undir greiningarnar, þau sem eru á jaðrinum ef svo má að orði komast. Sérkennslukvóti skólanna virðist vera af skornum skammti og aðeins ætlaður þeim sem eiga við verulega námslega erfiðleika að stríða. Sem betur fer fá þó flestir úthlutað 2 – 4 kennslustundum hjá sérkennara á viku ef þeir eru t.d. með lesblindu og þurfa því meiri aðstoð við lesturinn. Aðstoðin fer oft líka eftir því hvaða einkunn barnið hefur verið að fá í ákveðnum fögum. Þau börn sem aftur á móti eru með athyglisbrest eða á mörkum athyglisbrests fá oft ekki mikið og jafnvel ekki neitt af þessum kvóta. Samt eru vinsamleg tilmæli frá greiningaraðila oft á þá leið að barnið þurfi rólegra umhverfi til að ná betri einbeitingu, vera framarlega í skólastofunni, fá fyrirmæli á myndrænan hátt og helst einslega o.fl. o.fl.

Þá spyr ég: Hvernig á einn kennari að sinna þessu ef í fjölmennum bekk (21 – 28 eins og algengt er) eru kannski 5 – 7 nemendur með athyglisbrest? Hvernig á að skapa þessum börnum rólegt lærdómsumhverfi og gefa hverju þeirra fyrirmæli einslega? Hvað á að gera við hin á meðan kennarinn reynir að sinna þessu? Er það barninu með athyglisbrestinn fyrir bestu að vera sem mest inni í sinni heimastofu helst allar kennslustundir dagsins? (sjá Barnasáttmálann 3. gr.) Ja, ég bara er svona aðeins að velta þessu fyrir mér.

Endilega segið mér og öðrum lesendum, ykkar skoðun á þessum málaflokki. Ég held að ég sé ekki ein hérna úti sem hef þessa upplifun um þennan málaflokk eða hvað?

Færðu inn athugasemd