Styrkjum stoðirnar

Í mér er mikill hiti varðandi menntamál yngstu kynslóðarinnar. Ég kenni eins og er á yngsta stigi grunnskóla en áður hef ég kennt mest á miðstigi. Mér blöskrar hvernig vinnuumhverfi þessir ungu nemendur þurfa að lifa við og er boðið upp á í mörgum tilfellum. Bekkir eru of fjölmennir og oft er getublöndun innan bekkjar mjög mikil, margar greiningar og margt sem þarf að taka tillit til og þetta er einn umsjónakennari að sjá um. Það er alveg ljóst að ekki verður hægt að ná því besta fram í hverjum nemanda fyrir sig, hvorki námslega né félagslega þegar utanumhald er ekki meira en raun ber vitni.

Niðurskurður hefur verið mikill frá því árið 2008 og grunnskólarnir sluppu ekki við þessa köldu og óvægu niðurskurðar gröfu sem send var af stað. Allt bitnar þetta á blessuðu börnunum og þau fá ekki lengur þá þjónustu sem þau ættu að fá. Kennurum hefur jafnvel verið bent á að nota æðruleysið gagnvart því ráðaleysi sem við þeim blasir. Hvaða endemis rugl er þetta? Langflestir kennarar eru mjög metnaðarfullir og vilja skila frá sér góðu verki en það er meira en að segja það með fjölmenna og mikið getublandaða bekki að koma almennilega á móts við getu og þarfir hvers og eins svo vel sé. Það sárvantar allan skilning á stöðu mála og mér finnst brotið á rétti barna varðandi þá þjónustu sem þau eiga fullan rétt á.

Kennarar gefast upp á að starfa í svona brotnu umhverfi til lengdar og þegar upp er staðið verður þetta allt miklu dýrara fyrir þjóðfélagið. Kennarar og starfsfólk skóla kulna í starfi langt fyrir aldur fram og til verða æ fleiri vandamál sem tengjast heilsu og líðan þeirra.

Styrkjum stoðirnar hjá yngstu kynslóðinni með því að efla starfið í grunnskólanum og bjóða þar upp á mun betri og meiri þjónustu því það er í þágu okkar allra.

Færðu inn athugasemd