Náms- og starfsráðgjöf (náms- og starfsfræðsla)

Hvað gera náms- og starfsráðgjafar? Þetta er alls ekki óalgeng spurning frá fólki á öllum aldri. Mér finnst alveg vera kominn tími til að upplýsa fólk betur um þau fjölbreyttu störf sem náms- og starfsráðgjafar sinna. Greinin þarf að vera sýnilegri almenningi og nýta þarf þekkingu og reynslu þessara fagaðila betur. Til þess að verða löggildur náms- og starfsráðgjafi þarf að fara í tveggja ára MA nám sem kennt er við Háskóla Íslands, námið er mjög krefjandi og enginn leggur á sig svona nám nema til þess eins að ætla sér að fara að starfa á sviðinu.

Hvar starfa náms- og starfsráðgjafar? Jú, þeir eiga lögum samkvæmt að starfa í ÖLLUM grunn- og framhaldsskólum landsins, háskólarnir bjóða upp á náms- og starfsráðgjöf, Vinnumálastofnun t.d. vegna atvinnuleitar og endurhæfingar, sí- og endurmenntunarstöðvar eins og Mímir símenntun, Iðan fræðslusetur, Námsflokkar Reykjavíkur, Námsflokkar Hafnarfjarðar o.fl. o.fl.

Hver eru helstu hlutverk náms- og starfsráðgjafa? Fyrst og fremst eru náms- og starfsráðgjafar trúnaðar- og talsmenn skjólstæðinga sinna, þeir bera ávallt hagsmuni þeirra fyrir brjósti og hjálpa þeim við að finna hæfileikum sínum réttan veg og stefnu hvort sem er námslega eða í leit að starfi. Áherslur geta verið misjafnar eftir því hvaða vettvang er um að ræða, þ.e. hvort um er að ræða grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla o.s.frv. Sjá dæmi hér fyrir neðan:

Grunnskóli –

Helstu verkefni náms- og starfsráðgjafa eru:

  • Veita ráðgjöf varðandi nám, námstækni og námsvenjur.
  • Veita ráðgjöf varðandi náms- og starfsval.
  • Veita persónulega ráðgjöf og stuðning.
  • Veita leiðsögn og ráðgjöf um streitu- og kvíðastjórnun.
  • Veita leiðsögn og ráðgjöf um reiðistjórnun.
  • Bjóða uppá áhugasviðskannanir í 10. bekk.
  • Veita nemendum og foreldrum þeirra upplýsingar um framhaldsnám.
  • Vinna að eineltismálum í samvinnu við umsjónarkennara og annað starfslið skólans.
  • Standa vörð um velferð nemenda og er trúnaðarmaður og málsvari þeirra.

 

Framhaldsskóli –

  • Ráðgjöf vegna náms- og starfsvals
  • Bjóða upp á áhugasviðskannanir (STRONG, Bendill, Í leit að starfi)
  • Bjóða upp á prófkvíðanámskeið
  • Leiðsögn vegna kvíða- og streitustjórnunar
  • Ráðgjöf varðandi námstækni – glósutækni, tímastjórnun, skipulag
  • Fara yfir prófareglur með nemendum
  • Bjóða upp á leiðsögn varðandi prófaundirbúning
  • Veita aðstoð vegan námsörðugleika

 

Þetta er alls ekki tæmandi upptalning en eftir því sem einstaklingar verða eldri og þroskaðri getur lífið orðið flóknara þegar kemur að námsvali og starfvali og þá er gott að geta leitað til fagaðila. Fagaðilinn þ.e. náms- og starfsráðgjafinn hefur ekki endilega svörin við öllu en hans starf er að hjálpa einstaklingunum að líta inn á við og finna sjálfan sig í þessum ólgusjó sem oft blasir við þeim.

Eins og málin standa í dag fá ekki allir nemendur grunn- og framhaldsskólanna á Íslandi náms- og starfsráðgjöf (fræðslu) eins og lög gera ráð fyrir. Fyrir utan það þá eru til innlendar rannsóknir sem sýna að í sumum skólum er aðeins einn náms- og starfsráðgjafi með allt upp í 800 nemendur á sinni könnu einn og óstuddur. Samkvæmt tillögum nefnda hér á landi og Bandarísku námsráðgjafasamtakanna væri æskilegur nemendafjöldi 300 á hvert 100% stöðugildi náms- og starfsráðgjafa (http://www.althingi.is/altext/136/s/pdf/0353.pdf).

Að mínu mati er þessum málaflokki illa sinnt og eitthvað þarf að gera til að bæta úr þessu. Brotið er á rétti nemenda og náms- og starfsráðgjafar ná alls ekki utan um öll þau hlutverk starfsins sem þeim er ætlað að sinna svo vel sé. Niðustöður rannsóknar sem ég gerði meðal náms- og starfsráðgjafa í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi 2014 – 2015 sýna svo ekki verði um villst að starfið er mjög krefjandi og 67% sögðust vera mjög þreytt andlega í lok vinnudags. Ráðgjöf við nemendur um persónuleg málefni var mjög stór hluti af persónulegri ráðgjöf á báðum skólastigum en 91% náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskólunum settu þáttinn í sæti eitt til þrjú og 84% í grunnskólunum.

Er ekki kominn tími til að gera eitthvað í þessum málum? Hvað finnst ykkur?

Réttindi barna

Nú langar mig aðeins til að beina sjónum mínum að réttindum barna. Gott er að hafa til hliðsjónar hvað fram kemur í Barnasáttmálanum okkar góða sem lögfestur var hér á landi þann 20. febrúar árið 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf.

Í flokknum umönnun segir: Barnasáttmálinn leggur þær skyldur á aðildaríkin að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála.

Ég verð því miður að segja að mér finnst ekki öllum börnunum okkar sinnt jafnvel innan skólakerfisins. Þau börn sem eiga undir högg að sækja eru þau sem hafa fengið greiningar af ýmsu tagi og þau börn sem eru á mörkum þess að falla undir greiningarnar, þau sem eru á jaðrinum ef svo má að orði komast. Sérkennslukvóti skólanna virðist vera af skornum skammti og aðeins ætlaður þeim sem eiga við verulega námslega erfiðleika að stríða. Sem betur fer fá þó flestir úthlutað 2 – 4 kennslustundum hjá sérkennara á viku ef þeir eru t.d. með lesblindu og þurfa því meiri aðstoð við lesturinn. Aðstoðin fer oft líka eftir því hvaða einkunn barnið hefur verið að fá í ákveðnum fögum. Þau börn sem aftur á móti eru með athyglisbrest eða á mörkum athyglisbrests fá oft ekki mikið og jafnvel ekki neitt af þessum kvóta. Samt eru vinsamleg tilmæli frá greiningaraðila oft á þá leið að barnið þurfi rólegra umhverfi til að ná betri einbeitingu, vera framarlega í skólastofunni, fá fyrirmæli á myndrænan hátt og helst einslega o.fl. o.fl.

Þá spyr ég: Hvernig á einn kennari að sinna þessu ef í fjölmennum bekk (21 – 28 eins og algengt er) eru kannski 5 – 7 nemendur með athyglisbrest? Hvernig á að skapa þessum börnum rólegt lærdómsumhverfi og gefa hverju þeirra fyrirmæli einslega? Hvað á að gera við hin á meðan kennarinn reynir að sinna þessu? Er það barninu með athyglisbrestinn fyrir bestu að vera sem mest inni í sinni heimastofu helst allar kennslustundir dagsins? (sjá Barnasáttmálann 3. gr.) Ja, ég bara er svona aðeins að velta þessu fyrir mér.

Endilega segið mér og öðrum lesendum, ykkar skoðun á þessum málaflokki. Ég held að ég sé ekki ein hérna úti sem hef þessa upplifun um þennan málaflokk eða hvað?

Styrkjum stoðirnar

Í mér er mikill hiti varðandi menntamál yngstu kynslóðarinnar. Ég kenni eins og er á yngsta stigi grunnskóla en áður hef ég kennt mest á miðstigi. Mér blöskrar hvernig vinnuumhverfi þessir ungu nemendur þurfa að lifa við og er boðið upp á í mörgum tilfellum. Bekkir eru of fjölmennir og oft er getublöndun innan bekkjar mjög mikil, margar greiningar og margt sem þarf að taka tillit til og þetta er einn umsjónakennari að sjá um. Það er alveg ljóst að ekki verður hægt að ná því besta fram í hverjum nemanda fyrir sig, hvorki námslega né félagslega þegar utanumhald er ekki meira en raun ber vitni.

Niðurskurður hefur verið mikill frá því árið 2008 og grunnskólarnir sluppu ekki við þessa köldu og óvægu niðurskurðar gröfu sem send var af stað. Allt bitnar þetta á blessuðu börnunum og þau fá ekki lengur þá þjónustu sem þau ættu að fá. Kennurum hefur jafnvel verið bent á að nota æðruleysið gagnvart því ráðaleysi sem við þeim blasir. Hvaða endemis rugl er þetta? Langflestir kennarar eru mjög metnaðarfullir og vilja skila frá sér góðu verki en það er meira en að segja það með fjölmenna og mikið getublandaða bekki að koma almennilega á móts við getu og þarfir hvers og eins svo vel sé. Það sárvantar allan skilning á stöðu mála og mér finnst brotið á rétti barna varðandi þá þjónustu sem þau eiga fullan rétt á.

Kennarar gefast upp á að starfa í svona brotnu umhverfi til lengdar og þegar upp er staðið verður þetta allt miklu dýrara fyrir þjóðfélagið. Kennarar og starfsfólk skóla kulna í starfi langt fyrir aldur fram og til verða æ fleiri vandamál sem tengjast heilsu og líðan þeirra.

Styrkjum stoðirnar hjá yngstu kynslóðinni með því að efla starfið í grunnskólanum og bjóða þar upp á mun betri og meiri þjónustu því það er í þágu okkar allra.